Stjórn Atvinnuþróunarfélags Eyjafjarðar (AFE) hefur ráðið Þorvald Lúðvík Sigurjónsson sem nýjan framkvæmdastjóra félagsins frá 11. janúar nk. en fráfarandi framkvæmdastjóri lét af störfum nú um áramót. Þorvaldur Lúðvík hefur víðtæka reynslu úr atvinnulífinu, m.a. sem forstjóri Saga Fjárfestingarbanka og nú síðast sem ráðgjafi um fjármögnun sprotafyrirtækja og um markaðssetningu og rekstur smárra og meðalstórra fyrirtækja.
Hann lauk prófi í Alþjóðaviðskiptum og tungumálum frá Heriot-Watt University í Edinborg og FH Reutlingen í Þýskalandi árið 1995. Hann sinnti um nokkurra ára skeið kennslu við Háskólann á Akureyri meðfram öðrum störfum. Þorvaldur er jafnframt löggiltur verðbréfamiðlari. Vegna fyrri starfa sinna hjá Saga Fjárfestingarbanka og sem framkvæmdastjóri hjá Kaupþingi til ársins 2006 hefur Þorvaldur Lúðvík aðstoðað sérstakan saksóknara í rannsóknum embættisins á málefnum Glitnis og Kaupþings. Stjórn AFE hefur kynnt sér þau mál og þykir ekki ástæða til að efast um hæfi hans vegna þeirra rannsókna.
Alls bárust 37 umsóknir um stöðu framkvæmdastjóra Atvinnuþróunarfélags Eyjafjarðar. Fráfarandi framkvæmdastjóri félagsins er Magnús Þór Ásgeirsson.