Þorsteinn: Hengi silfurpeninginn á slána

Þorsteinn Ingason fyrirliði Þórs var að vonum svekktur eftir tapið gegn KR í bikarúrslitum karla í knattspyrnu í dag. KR hafði betur 2:0. Norðanmenn voru hins vegar heilt yfir betri í leiknum en sláin þvældist heldur betur fyrir Þórsurum sem áttu alls fimm sláarskot. Þorsteinn bar höfuðið hátt í leikslok. „Fótboltinn er grimmur og við vorum miklu betri í fyrri hálfleik og mættum greinilega vel undirbúnir til leiks. Ég er bara stoltur Þórsari í dag, við stóðum okkur frábærlega að mínu mati og 2:0 fyrir KR gaf ekki rétta mynd af þessum leik. Svona er bara fótboltinn stundum, hann getur verið grimmur,“ sagði Þorsteinn.

Um öll sláarskotin í leiknum hjá Þór sagði Þorsteinn: „Þetta er örugglega met í bikarúrslitum að skjóta fimm sinnum í slána. Ég held ég hengi líka silfurpeningin á slána á eftir,“ sagði Þorsteinn léttur í bragði.

Jóhann Helgi Hannesson átti mjög góðan leik fyrir Þór í dag og átti meðal annars eitt af fimm sláarskotum liðsins. „Við vorum betri en þeir í þessum leik og ef við hefðum nýtt okkar færi að þá hefðum við unnið þennan leik. Það spáði því enginn að við myndum koma hérna og yfirspila þá en við gerðum það. Þeir kláruðu sín færi en við ekki,“ sagði Jóhann. Sem fyrr segir átti Þór fimm sláarskot í leiknum og var hreint með ólíkindum að verða vitni að þessu.

„Þetta er svo svekkjandi. Kannski hefðum við skorað úr þessum færum á æfingu en það gekk ekki á stóra sviðinu. Ég er hrikalega ósáttur við þetta tap og við áttum skilið að fara með bikarinn heim,“ sagði Jóhann.

Nýjast