Þorsteinn: Farið að líta vel út

Þorsteinn Ingason fyrirliði Þórs var að vonum sáttur með 2:0 sigurinn gegn Fylki í kvöld í Pepsi-deild karla í knattspyrnu. Þetta var fyrsti sigur Þórs síðan 3. ágúst er liðið lagði Fram að velli. „Það er gaman að upplifa sigurtilfinninguna aftur. Maður var búinn að gleyma því hvernig þetta var,“ sagði Þorsteinn léttur við Vikudag eftir leik. Eftir úrslit kvöldsins er Þór sex stigum frá fallsæti og falldraugurinn fjarlægist.

„Þetta er farið að líta vel út en við megum hvergi slaka á. Það eru þrír erfiðir leikir eftir og við þurfum allavega eitt stig í viðbót til að tryggja okkur. Allavega það. Við eigum erfiðan útileik gegn Val á sunnudaginn og stefnum á að taka öll stigin þar,“ sagði Þorsteinn.

Ólafur Þórðarson þjálfari Fylkis var nokkuð rólegur eftir leikinn.

„Við ætluðum að byrja leikinn rólega sem við gerðum en við fengum á okkur tvö klaufamörk þar sem við sofnuðum á verðinum. Við nýttum ekki okkar færi í kvöld en Þórsarar gerðu það og það skildi á milli. Eflaust hafa menn það líka aftast í kollinum að við erum ekki í neinni fallhættu og þar af leiðandi slaka menn kannski meira á en góðu hófi gegnir. Hins vegar eigum við möguleika á að klára þetta mót aðeins betur og við ætlum að gera það,“ sagði Ólafur eftir leik.

Nýjast