Þorskafli verði aukinn um 5.000 tonn
Hafrannsóknastofnun kynnti í dag skýrslu um ástand helstu nytjastofna og veiðiráðgjöf fyrir fiskveiðiárið 2016/2017.
Þar kemur m.a. fram að hrygningarstofn þorsks hefur ekki mælst stærri í 40 ár og almennt er staða helstu nytjastofna sterk. Leggur stofnunin til að þorskafli verði aukinn um 5.000 tonn - og verði alls 244 þúsund tonn.
Gunnar Bragi Sveinsson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra: "Þetta eru vitanlega mjög góðar fréttir fyrir íslenskt samfélag og við getum horft björtum augum til framtíðar. Flestir fiskstofnarnir við Ísland hafa á undanförnum árum verið að styrkjast jafnt og þétt og þessi árangur sannar svo ekki verður um deilt mikilvægi ábyrgrar veiðistjórnunar sem byggð er á vísindalegum grunni. Við munum fara vel yfir skýrsluna á næstu dögum og ræða efni hennar við hagsmunaaðila og ríkisstjórn. Ákvörðun um heildarafla fiskveiðiársins 2016/2017 verður væntanlega gefin út fyrir lok mánaðarins."