Þórsarar lögðu Skagamenn og KA gerði jafntefli við Selfoss

Þórsarar lögðu Skagamenn sannfærandi í fyrstu umferð 1. deildar karla í knattspyrnu. Leikurinn fór fram í Boganum var hin besta skemmtun og úrslitin nokkuð óvænt en fyrirfram áttu eflaust flestir von á sigri gestanna af Skaganum. Þórsarar byrjuðu leikinn af miklum krafti og átti Einar Sigþórsson hörkuskot í slá eftir einungis tveggja mínútna leik. Ekki löngu síðar varði Atli Már Rúnarsson markvörður Þórs glæsilega skot frá Skagamanni.

Á 33 mínútu komust heimamenn yfir. Boltinn barst þá til Einars Sigþórssonar í vítateig ÍA eftir hornspyrnu Ottó Hólms Reynissonar, Einar gerði sér lítið fyrir og þrumaði boltanum í þaknetið af stuttu færi og kom Þór í 1-0.

Þannig stóð í hálfleik en fljótlega í byrjun síðar hálfleiks, nánar tiltekið á 49 mínútu komust heimamenn í 2-0. Ottó Hólm Reynisson lék þá einn varnarmann Skagamanna í teignum og náði að lyfta boltanum fyrir markið þar sem mættur var Jóhann Helgi Hannesson sem potaði boltanum í netið.

Þórsarar voru ekki hættir því á 71 mínútu skoraði Sveinn Elías Jónsson, sem gekk til liðs við Þór í vetur frá KA, þriðja mark heimamanna með skalla af stuttu færi eftir hornspyrnu frá títt nefndum Ottó Hólm.

Það sem eftir lifði leiks sóttu Skagamenn meira en fengu engin teljandi færi og heimamenn fögnuðu því sætum 3-0 sigri í leikslok.

Þórsarar léku leikinn af mikilli skynsemi, lágu aftarlega á vellinum og leyfðu ÍA að hafa boltann. Þegar þeir svo unnu boltann áttu þeir hvað eftir annað stórhættulegar skyndisóknir með Ottó Hólm fremstan í flokki en þessi 18 ára strákur átti stórleik í dag. Einnig var Óðinn Árnason sterkur í vörn Þórs en erfitt er að taka einstaka menn út fyrir góða frammistöðu því liðið stóð sig í heild vel í dag.

Á Selfossi tóku heimamenn á móti KA. Báðum liðum er spáð ágætis gengi í deildinni í sumar og var því búist við nokkum jöfnum leik. Svo fór að liðin skyldu jöfn 1-1, Steinn Gunnarsson koma KA yfir snemma fyrri hálfleiks en Selfyssingar jöfnuðu metin stuttu síðar og þar við sat, þrátt fyrir að bæði lið fengju töluvert að færum til að bæta við mörkum í þessum opna og skemmtilega leik. Jafnræði var með liðunum í leiknum og hefði hann getað fallið hvoru liðinu í hag, KA-menn geta hins vel við úrslitin unað þar sem Selfyssingar þykja erfiðir heim að sækja. Nánar verður sagt frá þessum leik í Vikudegi nk. fimmtudag.

Nýjast