Þórsarar lögðu ÍBV á Þórsvelli

Þórsarar unnu sterkan sigur á ÍBV á Þórsvelli í kvöld í Pepsi-deild karla í knattspyrnu. Lokatölur urðu 2:1, en öll mörkin komu í fyrri hálfleik. Þór komst í 2:0 með mörkum frá David Disztl og Sveini Elíasi Jónssyni en Ian Jeffs skoraði mark Eyjamanna. Með sigrinum er Þór komið með sex stig en er sem fyrr í ellefta og næstneðsta sæti. ÍBV hefur 13 stig í öðru sæti. Þórsarar byrjuðu leikinn af krafti í kvöld og pressuðu Eyjamenn stíft fyrstu mínúturnar, vel studdir af 750 áhorfendum á Þórsvelli.

Sú pressa skilaði marki eftir fimm mínútna leik. Ingi Freyr Hilmarsson átti sendingu inn í teig frá vinstri þar sem David Disztl stökk manna hæst og skallaði boltann í netið. Skallinn var tiltölulega beint á markið og spurning hvort Guðjón Orri Sigurjónsson hefði ekki átt að gera betur í marki Eyjamanna. Engu að síður draumabyrjun hjá Þór og staðan 1:0.

Leikurinn jafnaðist út eftir markið og Eyjamenn fóru að láta meira að sér kveða. Vörn Þórs var ekki sannfærandi og virkaði mjög ótraust en Eyjamenn náðu ekki að færa sér það í nyt. Þórsarar skoruðu svo annað mark eftir stundarfjórðungsleik er Gunnar Már Guðmundsson skallaði boltann í netið eftir hornspyrnu. Gunnar Már var hins vegar dæmdur brotlegur og markið því ekki gilt.

Gunnar Már var svo aftur á ferðinni eftir hálftíma leik. Þórsarar áttu þá skyndisókn og Gunnar geystist upp völlinn og gaf frábæra sendingu inn á Svein Elías Jónsson, sem fékk boltann inn í teig og skoraði með fínu skoti. Þarna átti Guðjón Orri í marki gestanna að gera betur en skotið var beint á markið. Vel gert hins vegar hjá Svein Elíasi og Þórsarar komnir í 2:0.

Nokkrum mínútum síðar fékk ÍBV aukaspyrnu á hættulegum stað. Eiður Aron Sigurbjörnsson spyrnuna sem var föst en Srdjan Rajkovic í marki Þórs gerði vel í verja í horn. Eyjamenn náðu að minnka muninn úr hornspyrnunni en boltinn datt fyrir fætur Ian David Jeffs sem skoraði af stuttu færi. Staðan 2:1.Eyjamenn voru nálægt því í tvígang að jafna metin á síðustu andartökum fyrri hálfleiks en Þórsarar sluppu með skrekkinn.

Staðan 2:1 í hálfleik.

Eyjamenn komu sterkari til leiks í seinni hálfleik og björguðu Þórsarar á línu eftir sjö mínútna leik. Ian Jeffs var svo kominn í dauðafæri á 60. mínútu en Aleksandar Linta gerði frábærlega með að handa sér fyrir boltann. ÍBV var mun líflegra liðið þessar mínútur.

Rasmus Steenberg Christansen átti góðan skalla að marki heimamanna eftir áttundu hornspyrnu Eyjamanna í leiknum, en Rajkovic sýndi frábæra takta í marki Þórs og varði vel. Skömmu síðar áttu Eyjamenn skot rétt framhjá markinu en Þórsarar en enn aftur sluppu Þórsarar með skrekkinn. Mark hjá Eyjmönnum hreinlega lá í loftinu og höfðu þeir öll völd á Þórsvelli.

ÍBV pressaði stíft síðustu mínútur en Rajkovic í marki Þórs hélt heimamönnum á floti. Þórsarar náðu að halda út og lokatölur á Þórsvelli, 2:1 sigur heimamanna.  

Nýjast