Þórsarar lágu á Hásteinsvelli
Eftir leiki dagsins í Pepsi-deild karla í knattspyrnu er Þór aðeins fjórum stigum frá fallsæti. Þórsarar sóttu ÍBV heim þar sem Eyjamenn unnu 3:1. Jóhann Helgi Hannesson kom Þór yfir um miðjan fyrri hálfleikinn en Aaron Spear jafnaði metin fyrir hálfleik. Andri Ólafsson bætti við tveimur mörkum fyrir heimamenn í seinni hálfleik og þrjú dýrmæt stig hjá Eyjamönnum í toppbaráttunni.
Með sigrinum er ÍBV komið á toppinn með 39 stig, en KR getur endurheimt toppsætið með sigri gegn FH, en sá leikur er í gangi. Þar sem Fram skellti Breiðablik 1:0 í dag er Þór aðeins fjórum stigum frá fallsæti þegar fjórar umferðir eru eftir. Norðanmenn hafa 18 stig í tíunda sæti deildarinnar.