Þórsarar í erfiðri stöðu eftir tap gegn Njarðvík

Þórsarar eru komnir í verulega slæma stöðu í Iceland Expressdeild karla í körfubolta eftir tap í kvöld á heimavelli gegn Njarðvík. Þórsarar voru mun sterkari aðilinn í fyrri hálfleik og höfðu 13 stiga forystu í hálfleik,  50-37. Hreint með ólíkindum er hins vegar að verða vitni að því hvernig Þórsliðinu tekst alltaf að kasta leikjum frá sér í 3. leikhluta.

Að þessu sinni skoruðu þeir ekki nema 9 stig í leikhlutanum gegn 23 frá gestunum og Njarðvík því yfir 60-59 að loknum leikhlutanum. Allt sjálfstraust var farið úr Þórsliðinu eftir slæman þriðja leikhluta og sást það bersýnilega á liðinu í fjórða leikhluta þar sem Njarðvíkingar náðu hægt og bítandi að læsa klónni um stigin tvö þrátt fyrir að Þórsarar gæfust ekki upp fyrr en flautað var til leiksloka. Njarðvík vann leikinn 84-79.

Þórsarar verða ekki sakaðir um andleysi eða skort á baráttuvilja því þeir börðust eins og ljón og fengu til að mynda á sig 21 villu gegn 12 villum Njarðvíkinga. Því miður fyrir heimamenn gerði skotnýtingin í seinni hálfleik, sem var mjög döpur, það að verkum að þeir náðu ekki að landa stigunum tveimur.

Þórsarar eru eftir sem áður í 11. sæti deildarinnar með 8 stig, fjórum stigum á eftir Fsu. Þór þarf að helst að vinna þrjá næstu leiki og FSu að tapa sýnum þrem til að raunhæft sé að Þór hangi í deildinni. Fjórði og síðasti leikur liðsins ef nefnilega gegn KR á útivelli og verður að teljas tafar ólíklegt að þeir landi sigri þar eins og sakir standa.

Nýjast