Þórsarar hefja leik í kvöld - Mæta með breytt lið
Körfuboltavertíðin er komin á fullt og fyrstu leikirnir í 1.deild karla fóru fram í gær. Þór hefur leik kvöld og byrjar á heimaleik gegn ÍA í Höllinni kl. 19:15. Þórsarar mæta með mikið breytt lið til leiks frá síðastliðnum vetri. Konrad Tota er hættur sem þjálfari liðsins, sem og Sigurður Grétar Sigurðsson aðstoðarþjálfari. Tota spilaði einnig lykilhlutverk með liðinu síðasta vetur og því mikill missir af honum fyrir liðið. Þá hafa margir lykilmenn sagt skilið við félagið og ber helst að nefna þá Wesley Hsu, Dimitar Petrushec, Vic Ian Damasin og Ólaf H. Torfason, en Ólafur reynir nú fyrir sér í úrvalsdeildinni með liði Snæfells.
Einnig eru þeir Hjalti Magnússon og Sindri Snær Rúnarsson hættir með liðinu. Þá er ólíklegt að Óðinn Ásgeirsson verði með. Nýr maður er við stjórnvölinn en það er hinn 39 ára gamli Serbi, Nebosja Vidic, en ekki fylgir sögunni hvort hann sé eitthvað skyldur knattspyrnumanninum fræga. Einnig hafa bæst í hópinn hjá Þór ungir leikmenn. Elías Kristjánsson er bakvörður sem kemur frá Njarðvík, Þorbergur Ólafsson er bakvörður frá Tindastóli og þá tekur Stefán Vilberg Leifsson fram skóna að nýju. Þá eru Þórsarar að vonast eftir erlendum leikmanni að nafni Allar Kiirats frá Eistlandi, en sá er tvítugur að aldri og hefur æft með liðinu undanfarið. Það er ljóst að meðalaldur Þórs liðsins hefur lækkað töluvert á milli ára og eftir að hafa verið hársbreidd frá úrvalsdeildarsæti í fyrra gæti liðið átt erfitt uppdráttar í vetur. Í samtali við Vikudag segir Nebosja Vidic þjálfari Þórs að það muni taka hann nokkra leiki að meta styrkleika liðsins.
Ég er satt að segja ekki viss um hvar liðið sem ég er með í höndunum stendur að getu og við sjáum betur þegar líður á veturinn hvar við stöndum gagnvart hinum liðunum í deildinni. Við ætlum bara að taka einn leik fyrir einu og reyna að hala inn stig, segir Vidic.