Þór/KA úr leik í bikarnum
Þór/KA fór betur af stað og lágu á gestunum en sköpuðu sér fá færi. Fyrsta alvöru færi leiksins kom á 14. mínútu og það var heimamanna. Mateja Zver var komin upp að endamörkum en færið var þröngt og skot hennar varið.Mateja lagði svo upp úrvalsfæri fyrir Marishu Schumacher eftir um hálftíma leik en Marisha hitti boltann illa og gott færi í súginn hjá Þór/KA.
Það voru hins vegar Fylkisstúlkur sem náðu forystunni á 34. mínútu, þvert gegn gangi leiksins. Silvía Rán Sigurðardóttir gerði þá sjaldséð mistök í öftustu línu heimamanna er hún ætlaði hreinsa boltann í burtu frá vítateigslínunni, en boltinn hafnaði í slánni og barst þaðan til Önnu Bjargar Bjjörnsdóttur sem skoraði framhjá Helenu Jónsdóttur í markinu. Staðan 0:1 og þannig stóðu leikar í hálfleik.
Leikurinn jafnaðist út í seinni hálfleik en var bragðdaufur framan af og lítið að gerast. Það vantaði allt bit í sóknarleik Þórs/KA en Fylkisstúlkur beittu ágætis skyndisóknum. Úr einni slíkri kom besta færi seinni hálfleiksins en það fékk Fjóla Dögg Friðriksdóttir eftir flotta stungusendingu frá Önnu Björg Björnsdóttur. Fjóla var kominn í gott færi ein móti markmanni en var með mann í bakinu og skot lélegt.
Þór/KA náði ekki að ógna marki Fylkis að ráði á lokamínútunum og Fylkir er komið áfram í bikarnum.