Þór/KA jafnaði í uppbótartíma gegn Val

Þór/KA og Valur gerðu í kvöld 1:1 jafntefli á Þórsvelli í 13. umferð Pepsi-deildar kvenna í knattspyrnu. Laufey Ólafsdóttir kom Val yfir snemma í seinni hálfleik og það mark virtist ætla að duga Valsstúlkum til sigurs. Þegar var komið fram í uppbótartíma fékk Þór/KA hins vegar dæmda vítaspyrnu er brotið var á Manyu Makoski. Mateja Zver skoraði úr spyrnunni og tryggði Þór/KA stig. Bæði liðin urðu að mikilvægum stigum í toppbaráttunni og sennilega eru norðanstúlkur úr leik í baráttunni um titilinn. 

Valsstúlkur byrjuðu betur á Þórsvelli í kvöld og Kristín Ýr Bjarnadóttir fékk fyrsta alvöru færi leiksins á 16. mínútu. Boltinn datt fyrir hana en Kristín hitti boltann skelfilega sem Beglind Magnúsdóttir varði í marki heimamanna. Valsstúlkur sóttu meira fyrstu mínúturnar og höfðu nokkra yfirburði. Þór/KA sótti á þegar líða tók á fyrri hálfleikinn og leikurinn jafnaðist út. Lítið var þó um opin færi en þau fáu sem komu voru Valsstúlkna.Þór/KA kom boltanum í netið á 40. mínútu er Marie Fernandez skoraði af stuttu færi eftir skelfileg varnarmistök en línuvörðurinn flaggaði rangstöðu og markið ekki gilt.

Staðan 0:0 í hálfleik.

Manya Makoski fékk úrvalsfæri eftir sex mínútna leik í seinni hálfleik er hún var komin ein í gegn. Færið var hins vegar þröngt og skot hennar beint á Meagan McCray í marki Vals. Skömmu síðar varði Þór/KA á línu eftir hornspyrnu og líf að færast í leikinn á Þórsvelli.

Það var svo á 57. mínútu sem fyrsta mark leiksins kom. Laufey Ólafdóttir var þar að verki er hún fékk boltann inn í teignum vinstra megin og lagði boltann í hægra hornið framhjá Berglindi í markinu. Snyrtilega gert hjá Laufey og Valur komið 1:0 yfir.Mateja Zver fékk frábært færi 67. mínútu til að jafna metin. Mayna Makosi átti frábæra stungusendingu inn fyrir vörn Vals þar sem Mateja stakk sér á milli varnarmanna og reyndi að vippa yfir Meagan í marki gestanna sem náði að verja.

Það stefndi allt í sigur Vals en þegar komið var fram á uppbótartíma fékk Þór/KA dæmda vítaspyrnu er brotið var á Manyu Makoski. Mateja Zver fór á punktinn og skoraði og tryggði Þór/KA stig í kvöld.

 

Eftir leikinn munar því áfram sex stigum á liðunum, Valur hefur 29 stig í öðru sæti en Þór/KA 23 stig í því fjórða.    

Nýjast