Þór/KA endaði í þriðja sæti deildarinnar

Þór/KA sigraði KR á útivelli, 3:2, í lokaumferð Pepsi- deildar kvenna í knattspyrnu sem fram fór í dag. Það dugði þó ekki til þess að ná öðru sæti deildarinnar sem gefur Evrópusæti því Breiðablik sigraði GRV á sama tíma með sjö mörkum gegn engu og náði öðru sætinu í deildinni á hagstæðri markatölu. Þór/KA endaði því tímabilið í þriðja sæti deildarinnar með 39 stig sem er besti árangur félagsins frá upphafi og norðanstúlkur geta borið höfuðið hátt eftir frábæra frammistöðu í sumar. 

Þór/KA komst í 3:0 í fyrri hálfleik með mörkum frá Bojönu Besic, Vesnu Smiljkovic og Mateju Zver. KR náði hinsvegar að minnka muninn í 3:2 með mörkum frá Ólöfu Gerði Ísberg og Sonju Björk Jóhannsdóttur og þar við sat.

Rakel Hönnudóttir náði ekki að komast á blað í leiknum og deilir því markakóngstitlinum með Kristínu Ýr Bjarnadóttur en báðar skoruðu 23 mörk í deildinni í sumar.

Nýjast