Þór/KA aftur á sigurbraut
Þór/KA komst aftur á sigurbraut í Pepsi-deild kvenna í knattspyrnu er liðið lagði Breiðablik að velli, 3:1, á Þórsvelli í kvöld í 16. umferð deildarinnar. Arna Sif Ásgrímsdóttir skoraði tvívegis fyrir heimamenn og varamaðurinn Lára Einarsdóttir eitt mark en Fanndís Friðriksdóttir skoraði mark gestanna úr vítaspyrnu. Þór/KA er áfram í fjórða sæti deildarinnar með 26 stig en Blikar hafa áfram 17 stig í sjötta sæti.
Það tók Þór/KA aðeins tvær mínútur að skora fyrsta markið og það gerði Arna Sif Ásgrímsdóttir með skalla eftir hornspyrnu frá Mateju Zver. Upphafsmínúturnar voru fjörugar og bæði lið fengu úrvalsfæri og áttu Blikar meðal annars skot í slá.
Arna Sif var svo nálægt því að skalla boltann öðru sinni í netið eftir rúmlega hálftíma leik, er hún skallaði boltann að marki eftir aukaspyrnu frá Mateju Zver en Birna Kristjánsdóttir varði í marki Breiðabliks.
Staðan 1:0 í hálfleik.
Þór/KA byrjaði seinni hálfleikinn með marki líkt og þann fyrri er Lára Einarsdóttir kom heimamönnum í 2:0 á 47. mínútu. Lára var nýkominn inn á sem varamaður fyrir Gígju Valgerðar Harðardóttur og ekki lengi að setja mark sitt á leikinn. Fanndís Friðriksdóttir minnkaði muninn með marki úr vítaspyrnu nokkrum mínútum síðar og staðan 2:1. Heimamenn voru sterkari framan af seinni hálfleik en bæði lið fengu ágætis færi til þess að bæta við mörkum undir lok leiksins.
Það var svo alveg undir lok leiksins að Arna Sif gulltryggði 3:1 sigur Þórs/KA með skallamarki eftir hornspyrnu, keimlíkt fyrra marki sínu.
Lokatölur, 3:1