Þór sigraði Magna 3-1 í opnunarleik Soccerademótsins í knattspyrnu karla í leik sem var að ljúka í Boganum rétt í þessu.
Þórsarar voru mun meira með boltann í fyrri hálfleik án þess þó að skapa sér mörg færi. Hreinn Hringsson skoraði fyrsta mark leiksins eftir góða fyrirgjöf frá Ottó Hólm Reynissyni eftir 12 mínútna leik. Ármann Pétur Ævarsson skoraði svo skömmu síðar annað mark Þórsara eftir sendingu Hreins Hringssonar.
Magnamenn fengu eitt gott færi til að minnka muninn áður en þeir feng víti á 43 mín. Frans Veigar Garðarson skoraði örugglega úr spyrnunni og skyndilega komin spenna í leikinn.
Í seinni hálfleik jafnaðist leikurinn nokkuð en Þórsarar fengu þó öll færin. Þeim gekk frekar illa að nýta þau en Ibra Jagne gerði út um leikinn um miðjan síðari hálfleik er hann skallaði í markið eftir hornspyrnu Ottós Hólm.
Lokatölur 3-1 í ágætis knattspyrnuleik miðað við árstíma.