Þór sektað vegna framkomu stuðningsmanna í bikarnum
Íþróttafélagið Þór hefur verið sektað um 35 þúsund krónur af Aga-og úrskurðarnefnd KSÍ vegna framkomu stuðningsmanna félagsins í bikarleik Þórs og KR í knattspyrnu karla sl. helgi á Laugardalsvelli. Stuðningsmenn Þórs fóru mikinn í leiknum, en virðast hafa farið yfir strikið þar sem þeir kveiktu á blysum í stúkunni og gerðust þar með brotlegir við lög KSÍ.
Um er að ræða annað atvik keppnistímabilsins sem Aga- og úrskurðarnefndin tekur fyrir vegna framkomu stuðningsmanna Þórs en einnig var félagið sektað um 10 þúsund krónur eftir leik Þórs og Vals í Pepsi-deildinni fyrr í sumar.