Þórsarar unnu í kvöld léttan sigur á slöku liði Breiðabliks í Iceland Expressdeild karla í körfubolta. Leikur liðanna fór fram í Íþróttahöllinni á Akureyri og fóru leikar 95-71.
Heimamenn voru ákveðnari í byrjun leiksins og áttu flest fráköst sem tilféllu undir körfunni. Staðan eftir fyrsta leikhluta var 21-13 Þór í hag.
Í öðrum hluta var mikil barátta en Þórsarar þó augljóslega betra liðið á vellinum. Þeim hins vegar gekk illa að hrista gestina af sér og má þar að mestu kenna um að þeir fengu alltof mikinn frið fyrir utan þriggja stiga línuna og nýttu sér það með ágætum. Staðan í hálfleik var 44-37.
Óhætt er að segja að vendipunktur leiksins hafi verið í byrjun þriðja leikhluta. Blikar byrjuðu á að minnka muninn í 44-39 en eftir fylgdi kafli þar sem Þórsarar skoruðu hvorki fleiri né færri en 21 stig í röð og breyttu stöðunni í 65-39.
Eftir þennan frábæra kafla heimamanna var í raun aldrei spurning hvoru megin sigurinn myndi enda Þórsliðið einfaldlega mun sterkara en lið Kópavogspilta. Staðan þegar flautað var til fjórða leikhluta var 72-54.
Fjórði leikhluti var svo nánast formsatriði fyrir Þórsara að klára því gestirnir virtust löngu búnir að gefast upp. Hrafn Kristjánsson þjálfari leyfði yngri leikmönnum liðsins að klára leikinn fyrir liðið en þeir héldu í horfinu og vel það. Lokatölur urðu 95-71, öruggur sigur hjá Þór og sá fyrsti á tímabilinu.
Cederic Isom var að venju góður í liði Þórs og skoraði 29 stig. Guðmundur Jónsson skoraði 18 stig, Óðinn Ásgeirsson 16 og Milorad Damanjac 13, aðrir skoruðu minna.