Þór óskar eftir fjárframlagi frá bænum vegna kalskemmda

Á síðasta fundi íþróttaráðs var tekið fyrir erindi frá Sigfúsi Ólafi Helgasyni framkvæmdastjóra Íþróttafélagsins Þórs þar, sem hann óskar eftir fjárframlagi frá Akureyrarbæ vegna mjög slæms ásigkomulags knattspyrnuvalla félagsins af völdum kalskemmda sem orsakaði mikinn kostnað við hirðingu þeirra í sumar. Einnig óskaði formaður Þórs eftir styrk frá Akureyrarbæ vegna þátttöku kvennaliðs Þórs/KA í Evrópukeppninni í knattspyrnu.  

Varðandi kalskemmdir telur íþróttaráð að þær veðurfarslegu aðstæður sem voru sl. vetur og vor hafi haft veruleg áhrif á þau íþróttafélög sem sjá um rekstur grassvæða í eigu Akureyrarbæjar. Ráðið telur það ljóst að án þeirra aðgerða sem gripið var til af hálfu félaganna hefði hefðbundin starfsemi þeirra raskast verulega með tilheyrandi óþægindum og tekjutapi. Íþróttaráð leggur því mikla áherslu á, að vegna þessara óvæntu og óviðráðanlegu aðstæðna sem upp komu, að Akureyrarbær taki þátt í þeim kostnaði sem til féll vegna viðgerðanna. Íþróttaráð óskar eftir því við bæjarráð að Íþróttafélaginu Þór verði veittur fjárhagslegur stuðningur vegna ofangreinds kostnaðar.

Einnig var óskað eftir 300.000 kr. styrk frá Akureyrarbæ vegna þátttöku kvennaliðs Þórs/KA í knattspyrnu í Evrópukeppni í lok september og byrjun október. Íþróttaráð fagnar góðum árangri kvennaliðs Þórs/KA. Ráðið hefur ekki fjárhagslegt svigrúm innan samþykkts ramma til að veita Íþróttafélaginu Þór stuðning vegna verkefnisins en óskar eftir því við bæjarráð að skoða mögulegan stuðning við kvennalið Þórs/KA, segir í bókun ráðsins.

Nýjast