Urður - tengslanet kvenna er félag kvenna í Þingeyjarsýslu með það að markmiði að efla samstöðu og samstarf kvenna á svæðinu og efla félagskonur í stjórnunar-, rekstrar- og félagsstörfum í Þingeyjarsýslum.
Urður - tengslanet kvenna mun standa fyrir mánaðarlegum hádegisfundum, fyrsta föstudag í hverjum mánuði, þar sem konur alls staðar að úr þjóðfélaginu munu vera með innlegg. Í kjölfarið verða svo léttar umræður.
Föstudaginn 5. febrúar næstkomandi ríður Katrín Júlíusdóttir á vaðið og mun tala um þor, tímasetningar í lífinu og segja frá sjálfri sér. Katrín er framkvæmdastjóri Samtaka fjármálafyrirtækja, fyrrum iðnaðarráðherra og núna fyrir jólin gaf hún út sína fyrstu bók. Katrín á rætur að rekja í Þingeyjarsýslu og er flestum að góðu kunn. Fundurinn byrjar klukkan 12:00 og verður streymt á facebook síðu Urðar. Einnig verður boðið upp á minni fundarstaði og verða staðsetningar kynntar á viðburðinum á facebook síðu Urðar.