Þór og Grindavík mætast á Þórsvelli í dag
Þór mætir liði Grindavíkur í dag á Þórsvelli kl. 17:00 í Pepsi-deild karla í knattspyrnu. Liðin er jöfn að stigum í níunda og tíunda sæti deildarinnar og hafa einnig sömu markatölu. Leikurinn er því gríðarlega mikilvægur fyrir bæði lið í baráttunni í neðri hluta deildarinnar.
„Við förum í þennan leik eins og alla aðra leiki og spilum til sigurs. Ég er ágætlega bjartsýnn fyrir leikinn. Við höfum spilað tvisvar við Grindavík í sumar, þeir fóru illa með okkur í deildinni en svo unnum við þá skemmtilega í framlenginu í bikarnum. Þannig að þetta verður eflaust hörkuleikur en með góðu hugafari og góðum stuðningi getum fengið þrjú stig sem væru mjög kærkomin,“ segir Hreinn Hringsson í þjálfaraliði Þórs.
Þeir Atli Sigurjónsson, Gunnar Már Guðmundsson, Janez Vrenko og Aleksandar Linta koma allir inn í lið Þórs eftir fjarveru í síðasta leik af misjöfnum ástæðum, en óvíst er hvort Jóhann Helgi Hannesson sé búinn að jafna sig eftir meiðsli. Hins vegar verða þeir Ingi Freyr Hilmarsson og Sveinn Elías Jónsson í banni.