Þór með bakið upp að vegg eftir tap gegn Blikum

Ingi Freyr Hilmarsson skoraði mark Þórs í kvöld.
Ingi Freyr Hilmarsson skoraði mark Þórs í kvöld.

Breiðablik bjargaði sér frá falli í dag með því að leggja Þór á Þórsvelli, 1-2, í næstsíðustu umferð Pepsi-deildar karla í knattspyrnu í dag. Eftir ágætis byrjun heimamanna voru það Blikar sem voru heilt yfir betri og sigurinn fyllilega verðskuldaður. Ingi Freyr Hilmarsson kom Þór yfir snemma leiks en Blikar svöruðu með tveimur mörkum frá Guðmundi Kristjánssyni og Kristni Steindórssyni. Þór er því komið með bakið upp að vegg og framundan er algjör úrslitaleikur hjá Þór gegn Keflavík í lokaumferðinni en liðin mætast þá suður með sjó þann 1. október.

Ljósi punkturinn hjá Þór í dag er að liðið er komið í Evrópukeppnina eftir að KR tryggði sér Íslandsmeistaratitilinn. 

Stemmningin var góð á Þórsvelli á þessum síðasta heimaleik Þórs og voru áhorfendur alls 1137, mesti fjöldinn hingað til í sumar. Þórsarar fengu draumabyrjun og komust yfir strax á 3. mínútu. Eftir flotta sókn Þórs barst boltinn til Inga Freys Vilhjálmssonar sem  var utarlega í vítateignum vinstra megin en lét engu að síður vaða á markið og hörkuskot hans hafnaði í netinu.  Leikurinn var nokkuð jafn næstu mínútur en Þórsarar hættulegri í sínum sóknaraðgerðum. Sveinn Elías Jónsson fékk fínt færi á 13. mínútu en skot hans úr þröngu færi úr vítateignum rétt framhjá. Skömmu síðar átti Clarke Keltie aukaspyrnu sem fór hárfínt yfir markið Breiðabliks. Gestirnir heppnir að lenda ekki tveimur mörkum undir þarna.

Blikar sóttu í sig veðrið þegar leið á hálfleikinn og þegar hálftími var liðinn af leiknum jafnaði Guðmundur Kristjánsson metin fyrir gestina. Markið var í fallegri kantinum. Eftir hornspyrnu barst boltinn til Guðmundar rétt utan teigs, sem tók boltann á bringuna og þrumaði honum í netið. Klassa mark og þegar þarna var komið við sögu voru Blikar mun betri.

Skömmu síðar þurfti Srdjan Rajkovic að taka á honum stóra sínum í marki Þórs, er hann varði glæsilega frá Kristni Steindórssyni en skot Kristins úr vítateignum stefndi upp í samskeytin.  Aðei ns andartökum síðar, á 37. mínútu, var Kristinn aftur nálægt því að ná forystunni fyrir Blika. Boltinn barst til Kristins eftir hornspyrnu og skot hans hafnaði í stönginni og þaðan beint í fangið á Rajkovic í marki Þórs. Lukkan á bandi heimamanna en Blikar afar óheppnir að vera ekki komnir yfir.

Blikar héldu áfram þar sem frá var horfið í seinni hálfleik. Gestirnir voru nálægt því að komast yfir snemma leiks en skalli frá Blikum var naumlega varinn af Rajkovic í marki Þórs.  Breiðablik náði svo verðskuldað forystunni í leiknum á 64. mínútu er Kristinn Steindórsson kom boltanum í netið, en hann fékk þá boltann í teignum og skoraði með hnitmiðuðu skoti í bláhornið.

Þórsarar reyndu hvað þeir gátu að jafna metin að þjörmuðu nokkuð að Blikum síðustu mínúturnar en Blikar héldu út. Þungi fargi létt af Breiðabliki en Þórsarar þurfa að leggja Keflavík að velli er liðin mætast suður með sjó í lokaumferðinni, laugardaginn 1. október.

Nýjast