Þór lagði topplið Selfoss að velli- KA tapaði á Ásvöllum

Þór gerði sér lítið fyrir og lagði topplið Selfoss að velli, 1-0, er liðin mættust í kvöld á Þórsvellinum í 1. deild karla í knattspyrnu. Það var Hreinn Hringsson sem skoraði eina mark leiksins úr vítaspyrnu á 24. mínútu leiksins. KA þurfti að sætta sig við tap gegn Haukum á Ásvöllum í kvöld þar sem lokatölur urðu 3-1 sigur Hauka. David Disztl skoraði mark KA í leiknum.  

Í leik Þórs og Selfoss voru það Selfyssingar sem byrjuðu leikinn betur og voru mun sprækari í upphafi leiks. Hjörtur Hjartarsson fékk fínt færi fyrir gestina strax á 6. mínútu leiksins en skot hans fór beint á Björn Hákon Sveinsson í marki Þórs. Hjörtur var svo aftur á ferðinni tíu mínútum síðar þegar hann skallaði boltann rétt framjá marki Þórs eftir aukaspyrnu.

Á 24. mínútu fengu heimamenn hinsvegar dæmda vítaspyrnu þegar brotið var á Ármanni Pétri Ævarssyni inn í teig gestanna. Hreinn Hringsson fór á vítapunktinn og skoraði af öryggi og heimamenn komnir með 1-0 forystu og það gegn gangi leiksins. Gestirnir létu ekki bugast þótt þeir lentu marki undir og héldu áfram að sækja. Sævar Þór Gíslason var nálægt því að jafna metin fyrir Selfoss sjö mínútum fyrir leikhlé er hann var sloppinn inn fyrir vörn Þórs en skot hans var beint á Björn Hákon Sveinsson markvörð Þórs og heimamenn sluppu með skrekkinn.

Staðan 1-0 í hálfleik.

Selfyssingar byrjuðu seinni hálfleikinn líkt og þann fyrri og voru staðráðnir í að jafna metin. Henning Eyþór Jónsson var nálægt því að skora fyrir gestina á 53. mínútu en er hann skallaði boltann hárfínt yfir mark Þórs eftir innkast. Heimamenn fóru að sækja í sig veðrið þegar leið á seinni hálfleikinn og Ottó Hólm Reynisson fékk dauðafæri á 68. mínútu leiksins en skot hans fór rétt yfir markið.

Þegar komið var fram í uppbótartíma héldu margir Þórsarar eflaust niðri í sér andanum þegar Sævar Þór Gíslason vippaði rétt yfir mark Þórs eftir að hann var sloppinn einn í gegn. Tæpt var það en Þór landaði frábærum 1-0 sigri á toppliði Selfoss.

Með sigrinum í kvöld er Þór komið í 24 stig í deildinni og lyftir sér upp í sjöunda sætið. KA er hinsvegar fallið niður í fimmta sætið með 26 stig og draumurinn um sæti í efstu deild að ári nánast úr sögunni.

Nýjast