Þór í úrslitaleikinn í bikarkeppni karla í knattspyrnu í fyrsta sinn
Halldór Áskelsson aðstoðarþjálfari Þórs og fyrrum leikmaður félagsins, var að vonum ánægður með úrslit leiksins, eins og flestir aðrir á Þórsvellinum. Hann sagði að það hefði alveg verið kominn tími á að komast í sjálfan úrslitaleikinn. "Maður er búinn að bíða eftir þessu í yfir 30 ár og nú er komið að því. Það verður bara rokk og þjóðhátíð á Laugardalsvellinum."
Halldór sagði að sínir menn hefðu ekki byrjað leikinn nógu vel. "Við vorum heppnir að sleppa með þetta framan af en vorum þeim mun öflugri í seinni hálfleik. Auðvitað voru Eyjamenn að sækja á okkur á köflum en við áttum frábærar skyndisóknir og hefðum getað skorað fleiri mörk. En svona er bikarinn, þetta var karktersigur og strákarnir eru búnir að sýna það í allt sumar að þegar þarf að stíga upp að þá gera þeir það. Og við förum í úrslitaleikinn til þess að vinna, það skiptir engu máli hver andstæðingurinn er."