Þór í 8-liða úrslit bikarins

Þórsarar eru komnir áfram í 8-liða úrslit Valitor-bikar karla í knattspyrnu eftir 3:1 sigur gegn Víkingi á Þórsvelli í kvöld. Sveinn Elías Jónsson og Gunnar Már Guðmundsson skoruðu sitt markið hvor fyrir Þór en eitt markið var sjálfsmark gestanna. Mark Víkings skoraði Halldór Smári Sigurðsson. Leikurinn á Þórsvelli var nokkuð jafn en sigurinn þó sanngjarn hjá hjá heimamönnum.

Fyrsta færi leiksins kom eftir um átta mínútna leik en Sigurður Marinó Kristjánsson átti þá fínt skot utan teigs sem fór rétt yfir mark Víkings. Skömmu síðar var úrvalsfæri hinu megin á vellinum en þá fékk Kjartan Dige Baldursson svo til frítt skot inn í teignum en boltinn hárfínt framhjá.Jóhann Helgi Hannesson var svo nánast sloppinn einn í gegn á 12. mínútu en var með mann í bakinu utarlega í teignum, skotið slakt og beint á Magnús Þormar í marki Víkings.

Það var svo á 23. mínútu sem fyrsta mark leiksins kom og það var sjálfsmark gestanna. Þórsarar áttu þá hornspyrnu og Magnús Þormar misreiknaði sig eitthvað í marki Víkings og kýldi boltann inn beint úr hornspyrnunni. Furðulegt mark og Þórsarar 1:0 yfir.Víkingur fékk svo dæmda vítaspyrnu á 36. mínútu er boltinn fór í höndina á Þorsteini Ingasyni fyrirliða Þórs. Walter Hjaltested fór á vítapunktinn en Björn Hákon Sveinsson fór í rétt horn og varði.Bæði lið fengu fín færu undir lok hálfleiksins.

Fyrst Viktor Jónsson fyrir Víking er hann fékk frítt skot inn í teignum en Björn Hákon gerði vel í að verja. Sigurður Marinó Kristjánsson, sem var allt í öllu í leik Þórs í fyrri hálfleik, fékk svo fínt færi skömmu síðar er hann var nánast einn á móti markmanni eftir sendingu frá Sveini Elíasi Jónssyni. Sigurður var aðeins of lengi að athafna sig og færi fór forgörðum.

Staðan 1:0 í hálfleik.

Víkingur fékk draumabyrjun í seinni hálfleik en hann var aðeins þriggja mínútna gamall þegar gestirnir jöfnuðu metin. Það gerði Halldór Smári Sigurðsson með einkar laglegu skoti, en Halldór fékk boltann sirka 30 m frá markinu og hamraði boltann viðstöðulaust í netið. Staðan 1:1.Víkingur var betri aðilinn framan af seinni hálfleik. Atli Sigurjónsson fór útaf í liði Þórs fyrir Baldvin Ólafsson og kom það niður á miðjuspili liðsins. Víkingur var svo nálægt því að komast yfir á 72. mínútu. Ingólfur “Veðurguð” Þórarinsson, sem hafði komið inn á af bekknum snemma í seinni hálfleik, átti sendingu á Sigurð Egil Lárusson sem var komin í ágætisfæri en skot hans rétt yfir markið hægra megin í teignum.

Þórsarar fóru að sækja meira þegar líða tók á hálfleikinn og þeir náðu forystunni á ný á 79. mínútu. Ottó Hólm Reynisson átti þá sendingu inn í teig á Jóhann Helga Hannesson, sem sneri af sér varnarmann en skot hans fór í annan varnarmann og barst þaðan til Sveins Elíasar Jónssonar sem skoraði auðveldega. Staðan 2:1. Sveinn Elías fékk svo tækifæri á að gera út um leikinn tveimur mínútum fyrir leikslok. Jóhann Helgi Hannesson átti stungusendingu inn fyrir vörn Víkings en fyrsta snerting Sveins var léleg sem missti boltann of langt frá sér og skotið beint á Magnús Þormar í markinu.

 

Gunnar Már Guðmundsson innsiglaði svo 3:1 sigur Þórs með marki á uppbótartíma og Þórsarar verða því í pottinum þegar dregið verður í 8-liða úrslit.  

Nýjast