Þór fær bikarmeistarana í heimsókn

Fimmta umferð Pepsi-deildar karla í knattspyrnu klárast í kvöld með einum leik, en þá mætast Þór og FH á Þórsvelli í frestuðum leik. Þetta er aðeins annar heimaleikur Þórs á tímabilinu en liðið er í næstneðsta sæti deildarinnar með þrjú stig. FH var spáð Íslandsmeistaratitlinum í ár, en bikarmeistararnir hafa hikstað í byrjun móts og eru í níunda sæti deildarinnar með fimm stig. Liðið náði t.a.m. aðeins jafntefli gegn nýliðum Víkings á heimavelli í síðustu umferð og hafa FH-ingar ekki verið sannfærandi.

„Þetta verður örugglega hörkuleikur. FH-ingar koma pottþétt særðir til leiks enda ekki sáttir við síðasta leik hjá sér og fengu skammir hjá þjálfaranum,“ segir Þorsteinn Ingason fyrirliði Þórs.  „Þeir hafa verið að hiksta og mæta væntanlega dýrvitlausir til leiks, þannig að við þurfum að vera á tánum frá fyrstu mínútu og ekki gefa tveggja marka forskot eftir tíu mínútur eins og gegn KR í síðasta leik. Við búumst við FH-ingum grimmum og sterkum. Við reiknum ekkert með að þeir eigi tvo slaka leiki í röð,” segir Þorsteinn.

Hann segir það vel hægt að leggja bikarmeistarana að velli. „Við teljum okkur geta unnið öll lið í þessari deild og sérstaklega á okkar heimavelli. Ef við ætlum okkur að halda okkur uppi í þessari deild að þá verður heimavöllurinn að vera sterkur og væntanlega verður megnið af okkur stigum í sumar tekið á heimavelli. Við setjum pressu á okkur hérna fyrir norðan og það er alveg eðlilegt. Sérstaklega ef við fáum 1000 manns á völlinn eins og í síðasta leik sem var frábært.”

Nýjast