Þór beið lægri hlut gegn Leikni R. kvöld

Þór tapaði í kvöld fyrir Leikni R. á heimavelli í áttundu umferð 1. deildar karla í knattspyrnu. Eitt mark var skoraði í leiknum og það gerðu Leiknismenn á síðustu mínútu fyrri hálfleiks. Markið skoraði Ólafur Hrannar Kristjánsson. Lokatölur á Akureyrarvelli í kvöld, 1-0 sigur Leiknis.

Leikurinn fór rólega af stað og var fyrri hálfleikur leiksins afskaplega bragðdaufur og lítið fyrir augað að sjá. Besta færi Þórs í fyrri hálfleik fékk Einar Sigþórsson á 43. mínútu er hann fékk sendingu inn í teig gestanna og var kominn í fínt færi en skaut boltanum yfir markið.

Aðeins mínútu seinna gáfu heimamenn í Þór Leiknismönnum hornspyrnu. Misskilningur milli varnarmansins Víkings Pálmasonar og Atla Má Rúnarssonar í marki Þórs, gerði það að verkum að Víkingur sparkaði boltanum útaf þegar Atli var við það að taka boltann upp. Leiknir fékk því hornspyrnu á silfurfati. Sú hornspyrna var dýr fyrir heimamenn því Ólafur Hrannar Krisjánsson skoraði af stuttu færi eftir hornspyrnuna og kom gestunum yfir undir lok fyrri hálfleiks.

Staðan í hálfleik 1-0 fyrir Leikni.

Gestirnir hófu seinni hálfleikinn af krafti. Kristján Páll Jónsson fékk fínt færi strax á 46. mínútu er hann fékk boltann í teig heimamanna en þrumaði boltann yfir.

Næstu mínúturnar voru heimamenn meira með boltann en þeim gekk afar illa að koma sér í ákjósanlegt marktækifæri. Leiknismenn voru mun líklegri til að bæta við marki heldur en Þór að jafna. Á 80. mínútu leiksins fékk Helgi Óttarr Hafsteinsson dauðafæri fyrir Leikni er hann fékk sendingu inn í teig Þórs en Atli Már Rúnarsson í marki heimamanna gerði vel í að verja.

Þegar komið var fram í uppbótartíma átti Einar Sigþórsson góðan skalla fyrir heimamenn að marki gestanna sem markvörður Leiknis varði með naumindum.

Stuttu síðar flautaði dómarinn til leiksloka og heimamenn í Þór þurftu því að sætta sig við enn eitt tapið í sumar. Eftir leikinn er Þór í 10. sæti deildarinnar með sex stig.

Nýjast