Það gengur alveg þokkalega, við höfum uppskorið vikulega undanfarna mánuði og einbeitt okkur að innanlandsmarkaði, segir Jóhannes Már Jóhannesson framkvæmdastjóri Skelfélagsins í Hrísey. Félagið hóf starfsemi á liðnu ári í kjölfar gjaldþrots Norðurskeljar og segir Jóhannes Már að verið sé að byggja undir reksturinn og horfa til framtíðar. Sú skel sem nú er unnið með var sett niður á vegum Norðurskeljar en Skelfélagið setti einnig niður á liðnu vori og mun hún koma til uppskeru næsta sumar. Við höfum einbeitt okkur að innanlandsmarkaði undanfarið og salan hefur aukist jafnt og þétt. Við höfum verið dugleg að kynna vöruna og markaðssetja hana fyrir Íslendinga en margir hverjir þekkja lítið til hennar. Kynningar hafa skilað góðum árangi, segir Jóhannes Már, en einkum og sér í lagi hafa kynningar verið á Akureyri og SV-horni landsins, höfuðborgarsvæðinu og nánasta nágrenni.
Næsta sumar mun það magn af bláskel sem fyrirtækið hefur yfir að ráða aukast og segir Jóhannes Már að þá skapist tækifæri til að horfa út fyrir landssteinana varðandi sölu. Verið sé að vinna í ákveðnum útflutningsverkefnum og leita nýrra leiða til að koma bláskel í sölu á erlendum mörkuðum. Um þessar mundir er verið að innkalla 10 milljón króna hlutafjáraukningu, en Jóhannes Már segir að hún hafi verið ákveðin fyrir margt löngu. Við erum bara að klára það ferli núna, þetta er löngu samþykkt aðgerð, en við erum að kalla eftir fénu núna, segir hann.