Þokkalega ánægðir með sumarið hjá Nökkva

„Þetta hefur bara gengið þokkalega vel miðað hvað sumarið byrjaði seint," segir Rúnar Þór Björnsson formaður Nökkva, félags siglingamanna á Akureyri. Veðurfarið norðan heiða í sumar hefur ekki verið hliðhollt siglingafólki.  

Júnímánaður var sá kaldasti í tæp 60 ár og sumarið yfir höfuð lélegt veðurfarslega séð. Rúnar segir þrátt fyrir þá staðreynd hafi aðsókn verið góð á námskeiðin í sumar og í samræmi við aðsókn undanfarin ár. „Þetta eru ungir og hraustir krakkar sem eru hjá okkur og láta veðrið ekki á sig fá." Nökkvi fékk nýjan björgunarbát til afnota í sumar, auk nýrra björgunarvesta, VHF vatnshelda fljótandi talstöð og nýjan Zodiac með 15 hestafla mótor. „Þetta er bara bylting í öryggismálum hjá okkur. Ætli við förum ekki úr svona 5 í 7 við þessar nýjungar," segir Rúnar.

Nýtt félagssvæði 2013?

Hins vegar vantar félaginu nýtt húsnæði til að uppfylla öll öryggismál en félagsmenn horfa til nýja deiliskipulagsins í þeim málum. Mikill hugur er í Nökkvamönnum með nýjar hugmyndir af skipulagi á Höepfnerssvæðinu í samvinnu við arkitektastofuna Teikn á Lofti. Rúnar segir að félagið sé að vinna að fjármögnun fyrir framkvæmdina og er bjartsýnn á að nýtt siglingasvæði Nökkva geti orðið að veruleika fyrr en síðar. „Ég á von á því að þetta gangi eftir og núna verður bara farið í að klára þessi skipulagsmál. Við viljum sýna að siglinga- og sjósport eigi heima á Akureyri," segir hann.

Nökkvi fagnar 50 ára afmæli sínu árið 2013 og segir Rúnar að draumurinn sé að taka fyrstu skóflustunguna á afmælisárinu. „Það yrði alveg magnað. Við erum algörlega með fæturnar á jörðinni með þetta nýja deiliskipulag, sem er ekkert í líkingu við upphaflegu áætlunina 2007. Þetta er bara brot af því og þetta er því vel gerlegt." Hægt er að sjá mótun fyrir nýju tillögunni á skipulagi við Höepfnerssvæðið á heimasíðu Nökkva, www.nokkvi.iba.is.

Nýjast