Lögreglan á Akureyri handtók karlmann á þrítugsaldri um kvöldmatarleytið, á stolnum póstbíl, á ferð í Vaðlaheiði. Maðurinn stal bílnum á Akureyri, og hafði brotist inn í bíl, stolið úr verslun og framið innbrot í íbúðarhús í Eyjafjarðarsveit þegar laganna verðir höfðu loks hendur í hári hans. Maðurinn sinnti stöðvunarmerkjum lögreglu sem kom akandi á móti honum, en þá var hann á norðurleið í átt að Svalbarðseyri. Maðurinn stökk þá út úr bílnum og tók til fótanna, en var hlaupinn uppi af lögreglumönnum. Maðurinn gistir nú fangageymslur lögreglu á Akureyri, en hann var í annarlegu ástandi og verður yfirheyrður á morgun. Hann hefur áður komið við sögu lögreglu, þó ekki á Norðurlandi. Þetta kemur fram á vef RÚV.