Þjóðlagadúettinn LalomA á Kópaskeri
Uppbyggingarsjóður Norðurlands eystra úthlutaði nýlega styrkjum til menningar, atvinnuþróunar og nýsköpunar í Eyjafirði og Þingeyjarsýslum eins og dagskrain.is hefur sagt frá.
Sjóðurinn er hluti af samningi milli Eyþings og ríkisins um Sóknaráætlun Norðurlands eystra 2015-2019.
Meðal styrkþega eru Flygilvinir tónlistarfélag við Öxarfjörð, en félaginu var úthlutað 200.000 kr. til tónleikahalds. Tónleikarnir sem um ræðir eru með þjóðlagadúettinum LalomA og fara þeir fram í skólahúsinu á Kópaskeri þriðjudaginn, 24. maí kl. 20:30.
LalomA er samstarfsverkefni Kristjáns Martinssonar sem spilar á flautu og harmonikku og Laura Lotti sem spilar á hörpu. Þau leiða saman hesta sína vegna sameiginlegs áhuga á vestur-evrópskri þjóðlagatónlist. Á efnisskrá eru lög frá Íslandi, Írlandi, Bretlandi, Frakklandi, Hollandi, Ítalíu og Norðurlöndunum.
Kristján rekur ættir sínar til Íslands og Englands en Laura til Hollands og Ítalíu. Það má því segja að dúettinn hafi fjölþjóðlegan blæ. Kristján hefur bakgrunn í djassinum en Laura úr klassíkinni, sem eykur enn á fjölbreytileikann. /epe.