Einnig hefur Vinnumarkaðsráð á Norðurlandi eystra ákveðið að styrkja starfssemina um 800 þúsund krónur í formi tækjakaupa. Vinnumálastofnun kaupir af SN tíu þjálfunarpláss fyrir einstaklinga sem hafa verið í atvinnuleit lengur en í eitt ár. Fram kom í máli Soffiu Gísladóttur forstöðumanns Vinnumálastofnunar á Norðurlandi eystra, að svona þjálfunarvinnustaður væri ekki til hér á landi, um sé að ræða tilraunaverkefni og nýjung í starfssemi Starfsendurhæfingarinnar. Hún sagði að með auknu atvinnuleysi eftir að kreppan skall á, hafi vantað úrræði til að brúa bilið og þjálfa fólk sem stefnir að því að komast út á vinnumarkaðinn á ný. "Það er þekkt vandamál að því lengur sem fólk er fjarri vinnumarkaðnum, því minni virkni, því meira þunglyndi og erfiðara verður fyrir fólk að komast af stað aftur," sagði Soffía.
Með þessu verkefni á að sporna við þeim ófyrirsjáanlegu afleiðingum sem langtíma atvinnuleysi hefur í för með sér. Áherslan er lögð á að byggja upp samvinnu við vinnumarkaðinn fyrir þá einstaklinga sem eru í þjálfun hjá SN og þurfa á stuðningi að halda til að komast í vinnu á ný. Þjálfunin fer fram í tilbúnum aðstæðum í heimastöð. Einnig er ætlunin að tengja hana við vinnumarkaðinn í formi starfskynninga og starfsþjálfunar. Á meðan á þjálfuninni stendur er þátttakandinn virkur í atvinnuleit.
Gissur Pétursson forstjóri Vinnumálastofnunar sagði mikilvægt að stjórnvöld skuli hafa sýnt því skilning að það sé þess virði að setja fjármuni í svona virkniaðgerðir. "Það verður spennandi að sjá hvernig þetta verkefni mun þróast, enda er sá þáttur sem varðar þjálfunina við að koma fólki af stað aftur svo mikilvægur."
Hugmyndin er sótt til sambærilegra þjálfunarvinnustaða í Evrópu og hugmyndafræðin einkum mótuð eftir hollenskum og slóvenskum fyrirmyndum. Starfsendurhæfing Norðurlands hefur verið í samvinnu við samstarfsaðila í Hollandi og í Slóveníu á síðustu sex árum í gegn um Evrópuverkefni og er sá þjálfunarvinnustaður sem nú lítur dagsins ljós ein afurða þess samstarfs.