Þingiðn ályktar um bága stöðu VMA
Á aðalfundi Þingiðnar, félags iðnaðarmanna í Þingeyjarsýslum sem haldinn var í gær urðu umræður um stöðu Verkmenntaskólans á Akureyri.
Þungum áhyggjum var lýst yfir stöðu verknáms á Íslandi. Mikil vöntun sé á starfsfólki með verkmenntun og henni hefur verið mætt með innflutningi á starfsfólki. Aðalfundurinn taldi að lausnin fælist í því að setja aukinn kraft í verknám enda atvinnuleysi frekar til staðar hjá fólki sem velur bóknám. /epe.
Ályktunin í heild sinni hljóðar svo:
„Aðalfundur Þingiðnar, félags iðnaðarmanna í Þingeyjarsýslum lýsir yfir þungum áhyggjum af stöðu verknáms í landinu. Fyrir liggur að ungt fólk velur frekar bóknám að loknum grunnskóla en verknám.
Meðal skólafólks er atvinnuleysi helst til staðar hjá fólki sem velur bóknám að loknu grunnskólanámi, engu að síður skráir verulegur meirihluti sig í þess háttar nám. Eðlilegt er að hlutfallið á milli þeirra sem velja bóknám og verknám sé jafnara þar sem gríðarleg vöntun er á fólki til starfa með slíka menntun. Þessari vöntun hefur verið mætt með innflutningi á iðnmenntuðu fólki. Lausnin felst ekki því, lausnin felst í því að setja aukin kraft í verknám á Íslandi. Fréttir berast af alvarlegum fjárhagsvandræðum Verkmenntaskólans á Akureyri. Staða skólans nú um stundir er sú að kennarar segja hann nánast gjaldþrota samkvæmt ályktun kennarafélags skólans frá 18. maí síðastliðnum. Skólinn er helsta verknámsstofnun landsbyggðarinnar og það er hrein aðför að verknámi á landsbyggðinni að staðan sé þessi. Þingiðn skorar á stjórnvöld að leysa fjárhagsvandræði skólans til framtíðar eins fljótt og auðið er.“