Tillögur stjórnar Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða um úthlutun vorið 2017 hafa verið samþykktar af Kolbrúnu R. Gylfadóttur, ráðherra ferðamála. Alls eru veittir styrkir til 58 verkefna hringinn í kringum landið og nemur heildarfjárhæð styrkja 610 milljónum króna.
Sex verkefni á starfssvæði Atvinnuþróunarfélags Þingeyinga hlutu styrk að þessu sinni, samtals 107,8 milljónir. Þetta kemur fram á heimasíðu félagsins
Þingeyjarsveit hlaut 28,8 milljónir til að bæta aðgengi, auka öryggi ferðamanna og vernda umhverfi Goðafoss. Styrkurinn nær til svæðisins beggja vegna fljótsins. Verkefnið tengist öryggi og uppbyggingu innviða á einum fjölsóttasta ferðamannastað Þingeyjasýslna, þar sem náttúruvernd og öryggismál eru sérstaklega aðkallandi.
Landgræðsla ríkisins fær 24,8 milljónir til úrbóta á bílastæði og leiðamerkinum fyrir gesti í Dimmuborgum. Dimmuborgir eru einn fjölsóttasti ferðamannastaður landsins. Á slíkum stað verða umgjörð og skipulag sérstaklega mikilvæg með tilliti til náttúruverndar og öryggis. Verkefnið er til þess fallið að styrkja þessa þætti.
Norðurþing fær 19,5 milljónir í frágang og aðkomu fyrir Heimskautsgerðið á Raufarhöfn. Gert verður bílastæði neðan við ásinn auk vegtengingar við þjóðveginn. Náttúran í umhverfi gerðisins lætur á sjá og öryggi ferðamanna er ábótavant. Verkefnið er mikilvægt fyrir innviðauppbygginu á veiku svæði á sama tíma og það eflir náttúruvernd og öryggi.
Vatnajökulsþjóðgarður hlýtur 15 milljónir til að byggja um 30 fermetra hús til að upplýsa gesti sem ganga ætla inn í Öskju um náttúru og öryggi. Mikilvægur liður í uppbyggingu innviða sem hefur mikla þýðingu fyrir öryggi á staðnum, þar sem upplýsingagjöf spilar lykilhlutverk á þessum vinsæla hálendisstað.
Vatnajökulsþjóðgarður hlýtur einnig 15 milljónir í uppbyggingu göngustíga næst bílastæði og salerni við Dettifoss að vestan, en umferð hefur margfaldast á undanförnum árum í kjölfar Dettifossvegar, sem einnig hefur opnað svæðið fyrir umferð allan ársins hring. Verkefnið mun leysa aðkallandi vandamál öryggis, innviða og náttúruverndar við þjónustureit og upphaf gönguleiðar að Dettifossi.
Fuglastígur á Norðausturlandi 4,7 milljónir til hönnunar á fuglaskoðunarskýli og skjólum á sex stöðum á Fuglastíg Norðausturlands. Norrænt samstarf um hönnun innviða. Sérstaklega vel undirbúið verkefni sem tengist náttúruvernd og öryggismálum en er einnig mikilvægt fyrir framtíðar innviðauppbygginu á svæði sem setið hefur eftir í ferðamennsku.
Þetta er sjötta árið sem Framkvæmdasjóður ferðamannastaða úthlutar styrkjum. Hlutverk sjóðsins er samkvæmt lögum að 1) stuðla að uppbyggingu, viðhaldi og verndun ferðamannastaða í opinberri eigu eða umsjón um land allt, 2) leitast við að tryggja öryggi ferðamanna og vernda náttúru landsins, og 3) fjölga viðkomustöðum ferðafólks til að draga úr álagi á fjölsótta ferðamannastaði.
Nánar má lesa um úthlutun Framkvæmdasjóðs á vef Ferðamálastofu þar sem finna má bæði kort og lista yfir styrkþega 2017.