Þetta var alveg magnað"
Þetta var alveg magnað og mjög góð reynsla fyrir mig. Þetta var svolítið öðruvísi en það er náttúrulega settur miklu meiri peningur í þetta þarna úti en hér heima og mun betri aðstaða fyrir vikið, segir markvörðurinn ungi Fannar Hafsteinsson hjá KA, sem æfði með enska úrvalsdeildarliðinu Tottenham Hotspur alla síðustu viku. Þetta var í annað sinn sem Fannar, sem er 16 ára, æfir með enska liðinu en hann fór þangað einnig í sumar og dvaldi í nokkra daga. Fannar æfði daglega með liðinu alla vikuna og auk þess sem hann fór á eina æfingu með aðalliðinu. Þar hitti hann fyrir nokkra kunnulega knattspyrnumenn. Það voru að vísu ekki allir leikmennirnir á æfingu vegna landsleikja en ég hitti þarna t.d. Jermain Defoe, Aaron Lennon og Brad Friedel markvörð. Ég fór á markmannsæfingu fyrst og hitti þar Friedel og spjallaði aðeins við hann. Þetta er alveg toppmaður en hann var ekkert að kenna mér nein trix svo sem, segir hann.
Fer mögulega á samning
Fannar gæti mögulega verið á förum til enska félagsins en það ætti að skýrast á næstu tveimur vikum. Það er verið að skoða þetta. Félagið er að fara yfir hvaða markvörðum þeir vilja halda og það er því alveg möguleiki að ég semji við það ef allt fer á besta veg. Þeir verða væntanlega búnir að ákveða sig eftir tvær vikur, segir Fannar, sem bíður eðlilega spenntur eftir næsta skrefi. Það yrði alveg magnað að komast á samning enda er það markmiðið að fara út í atvinnumennsku. Blaðamanni lék forvitni á að vita að lokum hvort Tottenham væri í raun hans lið í enska boltanum. Það var það ekki en er það núna. Ég hef verið United-maður en það gæti verið að breytast, segir Fannar í léttum tón.