Það eru gríðarleg vonbrigði að málið skuli fara í þennan farveg, segir Geir Kristinn Aðalsteinsson forseti bæjarstjónar Akureyrar, um þá ákvöðrun meirihluta umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis, að fela Ríkisendurskoðun að endurmeta forsendur Vaðlaheiðarganga. Geir segir að með þessu sé verið að kasta rýrð á þá óháðu aðila sem reiknað hafi út forsendur verkefnisins, Saga Fjárfestingarbanka, MP banka og fleiri.
Mér virðist sem ákveðnir aðilar á Alþingi séu að gera allt sem þeir geta til þess að véfengja þetta verkefni. Og ég spyr mig hveru lengi þeir geta haldið áfram. Þetta eru óþolandi vinnubrögð og það er eins og að öll tækifæri sem líta dagsins ljós á landsbyggðinni séu slegin af eins og hendi sé veifað. Við höfum ekki gefist upp og munum berjast fyrir þessu verkefni til síðasta blóðdropa. Geir segir að þáttur FÍB í málinu sé með hreinum ólíkindum. Ég veit ekki hvaða hagsmuni þeir eru að verja. Þetta er ekki spurning um Vaðlaheiðargöng eða eitthvað annað og það er ekki hlutverk FÍB að vera málsvari ríkissjóðs og þá hvort þetta verkefni lendir á ríkissjóði eða ekki. Fulltrúar FÍB eiga að hugsa um bíleigendur og það eru líka bíleigendur úti á landi.
Pétur Þór Jónasson framkvæmdastjóri Eyþings og stjórnarmaður í Vaðlaheiðargöngum hf. sagði það grafalvarlegt að þessi krafa um ríkisendurskoðun skuli vera að koma fram nú, á síðustu metrum undirbúnings. Fjallað hafi verið um málið í nefndinni sl. vor og þá sé kveðið á um þetta verkefni í lögunum sem voru samþykkt á síðasta ári. Einnig sé fjárheimild í fjárlögum til framkvæmda. Umhverfis- og samgöngunefnd kallaði ekki eftir sérstakri úttekt á þessum útreikningum þegar hún hafði málið til umfjöllunar í vor. Eftir það hefur verið farið í útboð og samningagerð við landeigendur og það liggur fyrir tilboð í brúargerðina og sjálf göngin. Það er grafalvarlegt ef ekki verður hægt að fara að ganga frá þessum málum, við höfum ekki ótakmarkaðan tíma og gætum því lent í slæmum málum og miklum kostnaði. Ég vona að málið fái skjóta afgreiðslu hjá ríkissendurskoðun en það er alveg sama hvernig menn reikna, það verður aldrei hægt að eyða allri óvissu.
Fjármálaráðherra fær heimild til að taka lán upp á einn milljarð vegna Vaðlaheiðarganga samkvæmt samþykkt meirihluta fjárlaganefndar. Þetta var ákveðið þegar fjárlaganefnd afgreiddi frumvarp til fjáraukalaga vegna ársins 2011 á fundi sínum í vikunni.