„Þetta er svo sannarlega íþrótt fyrir alla, á hvaða aldri sem er“

Opnað var fyrir almenning á Jaðarsvelli á mánudag. Vikublaðið tók Steindór Kristinn Ragnarsson, fram…
Opnað var fyrir almenning á Jaðarsvelli á mánudag. Vikublaðið tók Steindór Kristinn Ragnarsson, framkvæmdastjóra Golfklúbbs Akureyrar og vallarstjóra á Jaðarsvelli tali en hann er afar spenntur fyrir sumrinu. Mynd/aðsend

Golfvertíðin á Jaðarsvelli hófst í brakandi blíðu


Egill P. Egilsson/ egillpall@vikubladid.is

Greinin birtist fyrst í prentútgáfu Vikublaðsins sem kom út  á fimmtudag.

Á sunnudag sl. var árlegur vinnudagur hjá Golfklúbbi Akureyrar. Þá mæta á félagar í klúbbnum á Jaðarsvöll, taka til hendinni og hjálpast að við að koma vellinum í sem best stand fyrir opnun. Vikublaðið tók Steindór Kristinn Ragnarsson, framkvæmdastjóra Golfklúbbs Akureyrar og vallarstjóra á Jaðarsvelli tali en hann er afar spenntur fyrir sumrinu.

„Það var mjög góð mæting eða rétt rúmlega 80 manns sem komu og tóku til hendinni,“ segir Steindór og bætir við að flestir hafi gert sér glaðan dag á eftir og farið í golf. 

Völlurinn var svo opnaður almenningi á mánudag, 16. maí. Byrjunin hefði ekki getað verið betri og fjölmenntu golfþyrstir Akureyringar á Jaðarsvöll í brakandi sumarblíðu.

 Kemur vel undan vetri

Steindór segir að völlurinn komi mjög vel undan vetri enda hafi hann verið fljótt auður af snjó og apríl hafi verið hagstæður. „Hann kemur bara mjög  vel undan vetri og allir mjög ánægðir með hann,“ segir hann og bætir við að töluverð vinna sé lögð í það yfir veturinn að fyrirbyggja skemmdir.

„Fyrst og fremst fylgjumst við með flötunum og mokum af þeim snjó. Ef það er kominn klaki og útlit fyrir einhverja hlýja daga þá förum við og mokum snjónum af til að nýta hitann til að bræða klakann,“ útskýrir Steindór.

Þá segir hann að einnig hafi verið gerðir nýjir fremri teigar í vetur og drenvinna framkvæmd á brautum.

 Golf fyrir alla

Golf að Jaðri

Kylfum var sveiflað og boltar slegnir í brakandi blíðu á Jaðarsvelli á mánudag. Golfarar eru mjög spenntir fyrir sumrinu. Mynd/Víðir Egilsson.

 

Einhvern tíma hafði golfíþróttin þá ímynd að hún væri fyrst og fremst fyrir efnaða eldri borgar í köflóttum buxum. Sú ímynd er löngu dauð og grafinn enda eykst golfáhugi Íslendinga ár frá ári; og það eru öll kyn og aldurshópar sem sýkjast af golfbakteríunni. Í dag eru um 20 þúsund iðkendur skráðir í golfklúbba um allt land og að sögn Steindórs, annar eins fjöldi sem stundar íþróttina að einhverju leiti án þess að vera með félagsaðild.

„Þetta er svo sannarlega íþrótt fyrir alla, á hvaða aldri sem er. Við getum verið með fimm ára barn að spila með afa sínum á áttræðisaldri þess vegna. Þetta hentar öllum,“ segir Steindór og bætir við að um 850 meðlimir séu skráðir í Golfklúbb Akureyrar og stefnan sé að fjölga þeim upp í 1000 á allra næstu árum. „Rétt rúmlega 200 af þeim eru í barna og unglingastarfinu. Þannig að við erum með hátt hlutfall ungmenna. Það er mikilvægast af öllu að vera með gott barna og unglinga starf fyrir framtíðina.“

Skráðu þig inn til að lesa

Fáðu þér áskrift til þess að halda áfram að lesa.

Verð frá 2.690 kr. á mánuði.

 


Athugasemdir

Nýjast