KA/Þór tekur á móti Gróttu í KA-heimilinu í dag kl. 16:00 er N1-deild kvenna í handknattleik hefst að nýju eftir tæplega tveggja mánaða hlé. Fjórir leikir fara fram um helgina en FH mun sitja hjá þessa helgi. KA/Þór hefur tvö stig í næstneðsta sæti en Grótta eitt stig í því neðsta. Leikurinn er því afar mikilvægur fyrir bæði lið í baráttunni um að eygja möguleika á sæti í sex liða úrslitakeppninni í vor.
Þetta er algjör lykilleikur fyrir okkur. Það eru fjögur lið sem eru að berjast þarna í neðri hlutanum og þetta er tækifæri fyrir okkur til að skilja Gróttu eftir lengra frá okkur. Við verðum að vinna þennan leik, segir Guðlaugur Arnarsson þjálfari KA/Þórs um leikinn í dag. Norðanstúlkur hafa tapað fjórum leikjum í röð en Grótta hefur tapað fimm leikjum af sex í deildinni og gert eitt jafntefli.
Þótt Grótta hafi fengið öfluga leikmenn í haust að þá tekur tíma að slípa liðið saman. Þetta er engu að síður gott lið og verður örugglega hörkuleikur og við þurfum helst að stoppa einn leikmann, Sunnu Maríu (Einarsdóttur), sem er þeirra besti leikmaður, segir Guðlaugur. Hann segir sitt lið vera í fínu standi eftir þessa löngu pásu. Staðan á okkur er bara góð. Við nýttum pásuna nokkuð vel til að fara yfir þá hluti sem okkur fannst við þurfa að laga og æfðum vel.