Þetta er leikur sem við verðum að klára
Það er heldur betur farið að færast líf í fallbaráttuna í Pepsi-deild karla eftir leiki síðustu umferðar. Þegar tvær umferðir eru eftir geta fimm lið fallið, Keflavík, Breiðablik, Þór, Grindavík og Fram. Víkingur er fallinn en Framarar, sem sitja í fallsæti með 18 stig, gefa ekkert eftir og eru nú aðeins tveimur stigum á eftir Grindavík en þremur stigum á eftir Þór, Keflavík og Breiðablik sem öll hafa 21 stig.
Það stefnir því í æsispennandi lokaumferðir í deildinni en næstsíðasta umferðin fer einmitt fram í dag. Þá taka Þórsarar á móti Breiðabliki á Þórsvelli, en þetta er síðasti heimaleikur norðanmanna á leiktíðinni og jafnframt einn sá allra mikilvægasti í sumar.
Það er ósköp einfalt mál að þetta er leikur sem við verðum að klára, segir Halldór Áskelsson aðstoðarþjálfari Þórs. Þetta er lykilleikur og þessi umferð er mjög mikilvæg og kemur til með að ráða miklu. Það verður farið í þennan leik á móti Blikum sem úrslitaleik og vonandi fáum við þann margrómaða stuðning sem við þurfum og höfum fengið í sumar.
Er liðin mættust fyrr í sumar á Kópavogsvelli höfðu Blikar betur 4-1. Það hefur hins vegar verið lítill Íslandsmeistarabragur á Blikum undanfarið og t.a.m steinlá liðið gegn Víkingi á heimavelli í síðasta leik, 2-6.
Það er nú þannig að menn taka sig yfirleitt saman í andlitinu eftir svona skell, en á móti kemur að þetta getur líka bitnað á sjálfstraustinu hjá þeim. Við verðum samt bara að einbeita okkur að okkur sjálfum. Við mætum í leikinn af fullum krafti og klárum þetta dæmi. Þetta er ekkert flókið, segir Halldór.
Þórsarar verða væntanlega með sitt sterkasta lið á sunnudaginn, en óvissa er þó með Atla Sigurjónsson miðjumann, sem hefur misst af síðustu þremur leikjum vegna veikinda.