Þetta er hægt og framhaldið lofar góðu

„Við erum sátt við hvernig til tókst, það sem við lærðum af þessu er að þetta er hægt og framhaldið …
„Við erum sátt við hvernig til tókst, það sem við lærðum af þessu er að þetta er hægt og framhaldið lofar góðu,“ segir Hjörvar Kristjánsson skipaverkfræðingur og verkefnastjóri á útgerðarsviði Samherja eftir að Oddeyrin EA kom að landi eftir stuttan prufutúr. Skipið heldur til veiða síðar í dag. Mynd Margrét Þóra

„Við erum sátt við hvernig til tókst, það sem við lærðum af þessu er að þetta er hægt og framhaldið lofar góðu,“ segir Hjörvar Kristjánsson skipaverkfræðingur og verkefnastjóri á útgerðarsviði Samherja eftir að  Oddeyrin EA kom að landi eftir stuttan prufutúr. Fyrst og fremst var verið að prófa hvernig búnaður og veiðarfæri virkuðu en annars konar verklag er við að setja út veiðarfæri og taka þau inn en á hefðbundnum veiðiskipum.

Oddeyrin kom til landsins í sumar eftir gagngerar breytingar hjá danskri skipasmíðastöð. Slippurinn sá um að setja nýjan vinnslubúnað um borð. Hægt er að dæla fiski um borð og geyma lifandi í sérútbúnum tönkum um borð. Skipið verður einskon­ar til­rauna­skip Sam­herja í veg­ferð sem nú verður haldið í sem snýst um að geyma fisk lif­andi um borð og landa í kví­ar. Með þessu er hægt að auka af­hend­ingarör­yggi og lengja líf­tíma ferskra afurða. Aðferðin bygg­ist á því að fiski er dælt um borð og tank­ar eru út­bún­ir sjó­dælu­kerfi til að tryggja súr­efni svo að fisk­ur­inn hald­ist á lífi.

„Það gekk allt vel, við prófuðum okkur áfram og vissulega eru ýmis atriði í ferlinu sem við munum laga, allt minniháttar mál. Ánægjulega niðurstaðan er sú að þetta er hægt og virkar,“ segir Hjörvar. Eng­in út­gerð á Íslandi land­ar lif­andi fiski, en aðferðin þekkt í Nor­egi og hef­ur verið notuð þar í nokk­ur ár. Veitt verður í hefðbundna botn­vörpu en í stað þess að taka pok­ann inn á dekk og sturta ofan í lest verður pok­inn tek­inn á síðuna á afl­an­um dælt um borð með sog­dælu­kerfi. 

Þrusuáhöfn um borð

Til stendur að Oddeyrin haldi til veiða síðdegis eða í kvöld og fari þá í fullan túr. Þá verður vinnslan líka prófuð betur og verklag þróað. Hjörvar segir að um talsverðar nýjungar sé að ræða varðandi vinnubrögð, „en þetta er þrusuáhöfn um borð, allir jákvæðir og sveiganlegir og tilbúnir að vinna saman í þessu,“ segir hann. „Það er stór óplægður akur framundan í þessu hjá okkur. Við hlökkum til að takast á við þau verkefni og munum án efa betrumbæta eitt og annað á næstunni.“


Athugasemdir

Nýjast