Þetta er einhver skýrsla sem hefur dottið af himnum ofan

“Þetta er einhver skýrsla sem hefur dottið af himnum ofan og var ekki unnin fyrir fjármálaráðuneytið,” segir Kristján Möller alþingismaður og stjórnarmaður í Vaðlaheiðargöngum hf. um þá skýrslu sem vitnað var til í fréttum Sjónvarps í kvöld um Vaðlaheiðargöng. Kristján segir að fyrirtækið IFS ráðgjöf hafi skilað skýrslu um arðsemi verkefnisins til fjármálaráðuneytisins og hann vonast til að hún verði gerð opinber í næstu viku.

Vikudagur hefur rætt við nokkra Eyfirðinga og Þingeyinga um frétt Sjónvarpsins og var mönnum mjög brugðið, enda skýrslan sem vitnað er til mikill áfellisdómur yfir verkefninu. Í fréttum Sjónvarps var vitnað í skýrslu sem Pálmi Kristinsson verkfræðingur hefur unnið og var sagt að hann hafi unnið ítarlegt og óháð mat á forsendum Vaðlaheiðarganga. Í fréttinni kom fram að veggjöld í Vaðlaheiðargöng standi ekki undir gerð og rekstri ganganna, framkvæmdin verði mun dýrari og milljarða kostnaðar falli á ríkissjóð og samdráttur hafi orðið í umferð. Þá eru vinnubrögð við undirbúning harðlega gagnrýnd í skýrslu Pálma, fjárhagslegur undirbúningur talinn óvandaður og fjármálaráðgjafar haft takmarkaða þekkingu.

Eftir því sem Vikudagur kemst næst er ráðgert að skýrslan frá IFS ráðgjöf verði rædd í ríkisstjórn á þriðjudag og fari svo fyrir fjárlaganefnd í framhaldinu, eins og Steingrímur J. Sigfússon, þá fjármálaráðherra boðaði. Það stefnir í að enn verði tafir á því að hægt verði að hefja framkvæmdir við gerð Vaðlaheiðarganga en tilboð þeirra aðila sem áttu lægsta tilboð í verkið rennur út þann 15. febrúar nk. samkvæmt heimildum Vikudags.

 

 

Nýjast