"Þetta er alveg frábær tilfinning"

Aron Einar Gunnarsson. Mynd: Sport.is
Aron Einar Gunnarsson. Mynd: Sport.is

„Þetta er alveg frábær tilfinning. Maður bjóst ekki við þessu þegar maður skrifað undir hjá Cardiff á sínum tíma,“ segir knattspyrnumaðurinn Aron Einar Gunnarsson frá Akureyri, sem mun spila með liði sínu Cardiff City til úrslita í enska deildarbikarnum gegn Liverpool. Leikurinn fer fram á Wembley-leikvanginum margfræga þann 26. febrúar nk. Cardiff lagði Crystal Palace að velli, 4-1, í vítaspyrnukeppni í undanúrslitum sl. þriðjudagskvöld en bæði liðin leika í 1. deildinni á Englandi. Aron Einar var hársbreidd frá því að tryggja Cardiff sigur í framlengingunni, þegar hann átti hörkuskalla í þverslána. „Ég ákvað að halda smá spennu í þessu og fara með þetta alla leið í vítaspyrnukeppni,“ sagði Aron kíminn. „Boltinn vildi bara alls ekki fara inn hjá okkur þarna í lokin en það var ennþá sætara að klára þetta svona.“ Hann segir það ákveðinn draum að fá að spila á Wembley. „Þetta er tækifæri sem maður fær kannski einu sinni á lífsleiðinni sem knattspyrnumaður, ef maður er heppinn. Þannig að ég er bara stoltur Íslendingur í dag,“ segir Aron.  Ljóst er að róðurinn verður þungur í úrslitaleiknum fyrir Aron Einar og hans menn í Cardiff gegn úrvalsdeildarliði Liverpool. Aron segist ánægður með að mæta Liverpool í úrslitum og hefði fyrirfram frekar kosið að mæta þeim en Manchester City. „Hvorugt þessara liða er óskamótherji enda bæði mjög góð lið. Ég held hins vegar að við eigum meiri möguleika gegn Liverpool þar sem City hefur gríðarlega sterkan hóp. Við getum vel lagt Liverpool að velli ef við hittum á góðan dag en það verður erfitt. Liverpool er stórlið og ég bíð spenntur eftir að fá að takast á við þetta verkefni,“ segir Aron Einar.

Nýjast