„Þetta er ákaflega hvimleitt vandamál“

Strætóskýlin á Akureyri verða reglulega fyrir barðinu á skemmdarvörgum. Mynd/Þröstur Ernir.
Strætóskýlin á Akureyri verða reglulega fyrir barðinu á skemmdarvörgum. Mynd/Þröstur Ernir.

Skemmdarverk voru unnin á þremur strætóskýlum á Akureyri nýverið þar sem rúður voru brotnar. Skemmdarvargarnir létu til skarar
skríða á Borgarbraut og við Merkigil. Rúv greindi fyrst frá málinu og samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Akureyri er rannsókn málsins langt komin. Jónas Vigfússon, forstöðumaður umhverfismiðstöðvar Akureyrarbæjar, segir að enn eigi eftir að meta tjónið en það hlaupi á hundruðum þúsunda. 

Fyrir ári greindi Vikudagur frá því að rúður hafi verið brotnar á þremur strætóskýlum í Brekkuhverfi. Gunnar Jóhannsson, rannsóknarfulltrúi á Akureyri, sagði í samtali við Vikudag þá að vinsælt væri að brjóta rúður í strætóskýlum, um viðvarandi vandamál væri að ræða sem kæmi í bylgjum.

Jónas Vigfússon segir þetta leiðindarmál. „Þetta er ákaflega hvimleitt og bitnar á íbúunum sem þurfa að nota skýlin,“ segir Jónas. Spurður hvort komi til greina að fjölga steyptum strætóskýlum til að bregðast við vandanum segir hann
ekki svo vera.

„Það eru nokkur steypt skýli í notkun og erfiðara að skemma þau. En samt sem áður þá er krotað á þau. Við viljum frekar nota glerskýli því þau fara mun betur í umhverfinu og vagnstjórar sjá farþegana betur,“ segir Jónas og bætir við: „Fólk þarf aftur á móti að taka sig á varðandi umgengni og hvet ég þá sem sjá til skemmdarvarga að tilkynna þá til lögreglu.“

Nýjast