Kristveig Atladóttir sjúkraþjálfari segir óboðlegt að aldraðir einstaklingar í hvíldarinnlögn á Öldrunarheimilinu Hlíð á Akureyri fái ekki sjúkraþjálfun. Vikudagur fjallaði um málið í síðustu viku þar sem Guðný Bergvinsdóttir hjúkrunarfræðingur var ósátt við að móðir hennar eigi ekki rétt á sjúkraþjálfun í hvíldarinnlögn.
„Mér finnst þessi staða algjörlega óásættanleg,“ segir Kristveig, sem starfar sem sjúkraþjálfari á SAk. „Ég horfi því oft á eftir fólki inn á Hlíð og það er erfitt að vita til þess að fólkið fái ekki sjúkraþjálfun í hvíldarinnlögn. Markmiðið með hvíldarinnlögn er að að byggja fólk upp svo það geti búið lengur heima þannig að það skýtur skökku við að fólkið fái ekki sjúkraþjálfun,“ segir Kristveig.
Halldór Sigurðsson, framkvæmdastjóri Öldrunarheimila Akureyrar, sagði í síðasta blaði að hjá ÖA séu tímabundnar dvalir og fær stofnunin
greitt fyrir það eins og venjuleg hjúkrunarrými. Hins vegar hafi ekki fengist viðurkennd endurhæfingarrými og þess vegna sé minni þjónusta í hvíldarrýmum. Kristveig bendir á að þetta sé ekki dýr þjónusta í stóra samhenginu.
„Það hefur sýnt sig að sjúkraþjálfun hjá öldruðum skiptir verulegu máli. Þetta er einn þáttur sem vantar inn á Hlíð og málið hefur verið rætt á meðal sjúkraþjálfara. Þessu þarf að breyta. Vandamálið hefur verið lengi til staðar og ég skora á yfirvöld á Hlíð að breyta þessu,“ segir Kristveig Atladóttir.
Samkvæmt upplýsingum Vikudags er víða lögð áhersla á það á öldrunarheimilum á höfuðborgarsvæðinu að aldraðir fái sjúkraþjálfun í hvíldarinnlögn til þess að geta búið lengur heima.