Þelamerkurskóli og Grunnskóli Siglufjarðar í úrslit í Skólahreysti

Skólahreysti MS hélt áfram í Íþróttahöllinni á Akureyri fyrir helgina. Alls mættu 120 unglingar til keppni og keppt var  í tveimur  riðlum. Grunnskóli Siglufjarðar sigraði í fyrri riðlinum og Þelamerkurskóli sigraði seinni riðilinn. Tvö þúsund áhorfendur  komu í Höllina og studdu sína skóla og var stemningin frábær.  

Í fyrsta riðlinum kepptu skólar utan Akureyrar. Krakkarnir mættu vel undirbúnir til leiks. Grunnskóli Siglufjarðar vann sinn riðil árið 2008 og það var greinilegt að keppendur skólans ætluðu sér að  halda fyrsta sæti í sínum riðli í ár. Þeim tókst það, náðu fyrsta sæti og hlutu 63 stig. Borgarhólsskóli frá Húsavík varð í öðru sæti með 48 stig og Grunnskólinn á Blönduósi í þriðja sæti með 40 stig. 

Í öðrum riðli öttu saman kappi skólar frá Akureyri og næsta nágrenni. Það var Giljaskóli sem komst í úrslit 2008 og Þelamerkurskóli hafnaði þá í öðru sæti. Það var augljóst að Þelamerkurskóli hafði harma að hefna og ætlaði sér að ná fyrsta sætinu þetta árið. Þar sem keppnin var  hörð og spennandi þá kom það ekki í ljós fyrr en eftir síðustu grein hver kæmist í úrslit. Þelamerkurskóla tókst að  ná fyrsta sæti með 42 stig, Síðuskóli varð í öðru sæti með 36 stig og Giljaskóli í þriðja sæti með 33 stig. 

Tólf  lið komast í úrslit og eru eftirtaldir níu skólar komnir nú þegar : Varmalandsskóli, Grunnskóli Ísafjarðar, Salaskóli, Heiðarskóli/Reykjanesbæ, Hvolsskóli, Foldaskóli, Háteigsskóli, Grunnskóli Siglufjarðar og Þelamerkurskóli. Auk þess komast tveir árangursbestu skólarnir í úrslit fyrir utan þá sem hlutu fyrsta sæti í sínum riðlum. Þann 19. mars næstkomandi munu skólar keppa á Egilsstöðum. Þar munu unglingar af Austurlandi  sýna þrek og þol og þá kemur í ljós hvaða skóli af Austurlandi kemst í úrslit.

Þættir frá mótunum eru sýndir á laugardögum kl.18:00 á RÚV og endursýndir á sunnudögum og þriðjudögum.  

Nýjast