Þekkir þú manninn á myndinni?
Lögreglan á Norðurlandi eystra leitar enn karlmanns sem framdi vopnað rán í verslun Samkaupa/Strax á Akureyri rétt eftir klukkan átta í gærmorgun. Maðurinn ógnaði starfsmanni verslunarinnar með hnífi og hafði á brott með sér peninga.
Að sögn lögreglunnar hafa vísbendingar borist en þær hafa enn sem komið er ekki leitt til handtöku mannsins. Maðurinn er talinn vera í kringum þrítugt, um 180 sm á hæð og dökkhærður. Hann var klæddur í bláa hettupeysu og íþróttabuxur þegar ránið var framið.
Þeir sem hafa upplýsingar sem varða málið eru beðnir að hafa samband við lögregluna í síma 444-2800, í gegnum netfangið nordurland.eystra@logreglan.is eða Facebook-síðu lögreglunnar.