Þekkingar- og nýsköpunarsetur í Mývatnssveit

Á árinu 2015 samþykkti sveitarstjórn Skútustaðahrepps að skipa starfshóp sem kannaði möguleika á uppbyggingu fræða- eða þekkingarseturs í Mývatnssveit. Starfshópinn skipuðu Ásta Kristín Benediktsdóttir, Bjarni Jónasson, Jóhanna Katrín Þórhallsdóttir og Sigurður G. Böðvarsson.
Styrkveiting fékkst til verkefnisins frá Uppbyggingarsjóði Eyþings, Þekkingarnet Þingeyinga tók að sér verkefnastjórn og réði Margréti Hólm Valsdóttur sem verkefnisstjóra. Aflað var upplýsinga um þekkingarstarfsemi í Mývatnssveit og á öðrum stöðum til samanburðar. Lögð var könnun fyrir ýmsa aðila sem mögulegt er að geti komið að samstarfi við rekstur þekkingarseturs í Mývatnssveit. Kostir á staðsetningu og útfærslu slíks seturs voru kannaðir og gerð greining á styrkleikum og veikleikum ólíkra valkosta.
Skýrsla með niðurstöðum hópsins kom út hjá Þekkingarneti Þingeyinga í maí s.l. og er hægt að kynna sér hana á vefsíðu þess, hac.is. En eftirfarandi eru meginniðurstöður starfshópsins:
Hópurinn telur mjög fýsilegt (byggðalega og rekstrarlega) og gerlegt að reka þekkingarsetur í Mývatnssveit. Staðsetningarkostur er að öllu skoðuðu hentugastur við Grímsstaði.
Undirbúning að framkvæmd/útfærslu varanlegrar aðstöðu/þekkingarseturs þyrfti að setja í gang sem fyrst (haustið 2016) og stefna að opnun nýs þekkingarseturs í Mývatnssveit innan 2ja ára.
Undirbúningi bráðabirgðaaðstöðu þyrfti að koma í farveg sem fyrst (haust 2016). Horft verði sérstaklega til húsnæðis Skútustaðahrepps sem samliggjandi er skrifstofu hreppsins í Reykjahlíðarþorpi.
Aðilum sem lýst hafa áhuga á þátttöku í þekkingasetri verði þegar í stað gefinn kostur á að koma inn í það húsnæði sem fundið verður til bráðabirgðaaðseturs næstu tvö árin.
Þeir staðsetningarkostir fyrir þekkingarstarfsemi og nýsköpun sem voru skoðaðir voru: Reykjahlíðarþorp, svæði við afleggjara að Hverfjalli/Hverfelli, Dimmuborgir, Skjólbrekka, Hofsstaðir og Grímsstaðir. Og, eins og áður kom fram og segir í skýrslunni:
“Eftir að hafa grandskoðað alla þessa staðsetningarkosti hefur starfshópurinn komist að niðurstöðu um að mæla með Grímsstöðum, nálægt vegamótum, sem staðsetningu fyrir þekkingarsetur. Grímsstaðir eru sérstaklega vel í sveit settir í Mývatnssveit. Þar er landrými mikið og segja má að þaðan liggi leiðir til allra átta í sveitinni, framkvæmdavinna er að fara í gang í nágrenninu og Reykjahlíðarþorp er í þægilegri fjarlægð (ca. 4 km). Svæðið býður upp á mikla möguleika, ekki eingöngu til byggingar þekkingarseturs heldur væri einnig hægt að skipuleggja þar eins konar fjölnota þekkingarsvæði.
Sjá mætti fyrir sér að þar yrðu byggðar gestastofur stofnana, ekki endilega undir sama þaki og þekkingarsetrið heldur væru þessar stofnanir á sama svæði með ákveðna samnýtingarmöguleika. Einnig mætti skipuleggja á sama svæði lóð fyrir íbúðir eða smáhýsi. Þá yrði komist hjá því að byggja allt of stóra byggingu, en í stað þess væri hægt að koma upp fleiri byggingum á sama svæði sem falla vel að umhverfinu.” JS