„Þeir fá ekkert gefins hjá okkur”

„Já ég fer heldur betur á kunnuglegar slóðir og það verður gaman að koma aftur heim,” segir Gunnlaugur Jónsson þjálfari KA. Norðanmenn sækja ÍA heim í dag í 21. umferð 1. deildar karla, en Gunnlaugur gerði einmitt garðinn frægan sem leikmaður hér áður fyrr með ÍA og var m.a. fyrirliði liðsins er það varð Íslandsmeistari 2001.

Skagamenn hafa tryggt sér sigur í 1. deildinni en liðið er langefst með 48 stig á toppnum. KA hefur 26 stig í sjöunda sæti eftir tvo sigurleiki í röð.

„Það stefnir í það að Skagamenn fái bikarinn afhentan eftir leik en við ætlum að reyna að skemma aðeins stemmninguna hjá þeim og láta þá taka við bikarnum eftir tapleik. Þeir fá ekkert gefins hjá okkur,” segir Gunnlaugur. Þó að sætið í deildinni sé orðið tryggt segir Gunnlaugur að sýnir menn séu ekkert að fara dútla neitt í þessum tveimur leikjum sem eftir eru.

„Okkar markmið er að reyna enda eins ofarlega og við getum. Við eigum möguleika á að komast sæti ofar og við ætlum okkur að ná því. Ég er orðinn frekar þreyttur á því að menn tali um að mótið sé búið þó að fall blasi ekki við. Mótið er enn í fullum gangi og það er mikilvægt að klára þetta á sem bestan máta,” segir Gunnlaugur.

Nýjast