Þegar vafrið er orðið lífshættulegt

Þann 25. nóvember 2020, á alþjóðlegum baráttudegi Sameinuðu þjóðanna gegn kynbundnu ofbeldi hófst átakið ,,Roðagyllum heiminn” og því lýkur þann 10. desember en sá dagur er tileinkaður alþjóðlegum mannréttindum og er jafnframt alþjóðadagur Soroptimista. Átaksverkefnið lýtur að því að vekja athygli á kynbundnu ofbeldi gegn konum víðsvegar um heiminn.

Soroptimistaklúbbur Húsavíkur og nágrennis hvetur fyrirtæki og stofnanir í Þingeyjarsýslum til að leggja málefninu lið með roðagullinni lýsingu þessa daga og vekja þannig athygli á þessu brýna verkefni.


 

Það fyrsta sem mér datt í hug þegar ég var beðin um að skrifa pistil í tilefni af alþjóðlegum baráttudegi gegn kynbundnu ofbeldi þá hugsaði ég, „Ég er nú ferlega heppin í lífinu hvað þetta varðar“. Ég bý í landi þar sem konur búa við jöfn opinber réttindi og karlar. Þar sem möguleikar kvenna til að velja og stjórna eigin lífi aukast stöðugt. Ég fæddist inn í fjölskyldu sem hefur stutt mig í að gera það sem ég vil og ég fæddist á tíma þar sem konur á Íslandi þurfa ekki að berjast fyrir grundvallarréttindum líkt og kosningarrétti. Þess fyrir utan hef ég verið það heppin að komast ekki ínáin kynni við ofbeldismenn og ég hef ekki búið við heimilisofbeldi. Ég hugsaði aðeins lengra. Það er skrýtið að telja sig heppna að búa ekki í stöðugum ótta við að réttindi mín verði tekin af mér, að hafa ekki lent í ofbeldissambandi og að mér hafi „bara“ verið nauðgað einu sinni. Ég þekki fleiri en eina og fleiri en tvær konur sem hefur verið nauðgað oftar en einu sinni og sem hafa búið við ofbeldissambönd til margra ára. Flestir þekkja konur í þeirri aðstöðu, ýmist afvitandi eða ekki.

Heimildaöflun fyrir skrifin leiddi mig inn á vefsíðu sem inniheldur tölur varðandi kynbundið ofbeldi. Það sló mig þegar ég kom inn á síðuna að flennistórt merki á síðunni benti mér á að ég gæti með einu klikki komist inn á google.com án þess að hægt væri að sjá að ég hefði skoðað þessa tilteknu síðu. Þá fór ég að reyna að setja mig í spor þeirra kvenna sem alla daga búa við hræðslu. Hræðslu um að vera barðar, nauðgað eða drepnar. Líf þar sem það eitt að skoða vefsíðu er orðið áhættuatriði. Raunin er sú að sé horft til alls heimsins þá er lífshættulegt að vera kona. Um 137 konur deyja daglega vegna stöðu þeirra sem konur, af þeim falla 82 fyrir hendi maka. Þetta er ekki bara að gerast í Fjarskanistan. Í Svíþjóð deyr kona á þriggja vikna fresti fyrir hendi maka. Enn í dag eru valdhafar að ganga á rétt kvenna til sjálfsákvörðunar líkt og er að gerast í Póllandi. Konur fá ekki að velja. Enn í dag eru stúlkur og konur umskornar, hvernig nokkrum dettur í hug að það sé í lagi mun ég aldrei skilja og vil ekki skilja. Þó er það gert, stúlkubörnum og konum haldið niðri og skorið í kynfæri þeirra.

Samfélagið verður að horfa til þess að fordæma allt ofbeldi. Í dag er alveg ljóst að beiti einhver annan ofbeldi utan veggja heimilis er það glæpur. Innan veggja heimilisins var það lengi vel einkamál en sem betur fer í dag er ofbeldi innan heimilis víðsvegar orðið glæpur og unnið er að því að þróa leiðir til að taka á því og setja viðurlög. Verið er að innleiða aðferðir sem verja líf þolenda og gerandi fjarlægður.

Betur má þó ef duga skal og horfast verður í augu við að kynbundið ofbeldi er enn of normaliserað. Það er engum einum um að kenna en við verðum sem samfélag að átta okkur á mikilvægi gjörða okkar, hvernig bregstu við þegar þú heyrir um ofbeldi gegn fólki almennt? Leitarðu leiða til að horfa fram hjá alvarleikanum, jafnvel smætta atvikið með „léttu gríni“. Eða leitarðu réttlætinga, er sökin aldrei eins þegar tveir deila? Réttlætir hegðun, klæðnaður, ölvunarástand ofbeldi?

Ég hef ósjaldan verið viðstödd umræður um ofbeldi gegn konum. Enn í dag fylgir iðulega brandarinn „hún hefur líklega ekki búið um rúmið“ eða einhver álíka heimskuleg athugasemd og svo hlátur. Einnig eru konur enn í dag gagnrýndar fyrir klæðaburð sem á að geta leitt til þess að karlar ráðist á þær. Hversu ótrúlega galið er það? Af hverju er ábyrgðin ekki gerandans að öllu leyti. Ofbeldi á aldrei rétt á sér.

Stjórnvöld um allan heim þurfa að að ganga ákveðið fram til að takast á við þetta mein. Enn í dag eru það karlar sem fara með peningavaldið og stjórnun í stóra samhenginu. Við sjáum glöggt hvernig það getur undið upp á sig í þöggun og hundsun kynbundins ofbeldis-, t.d. í tilfelli Weinstein sem gat gert svo ótrúlega hluti í skjóli peninga og valds. Konur eru 51 sinnum líklegri að vera drepnar í kynlífsiðnaðinum í USA en karlar. Nú hugsa kannski einhverjir, þeim er nær að vera í kynlífsiðnaðinum. Þar má hugsunin aldrei enda, þeir hinir sömu verða að spyrja sig, „réttlætir það manndráp?“

Í dag er vírus í gangi sem bindur fólk heima við og á síðustu tólf mánuðum hafa um 243 milljónir kvenna og stúlkna á þurft að þola ofbeldi af hálfu maka. Þær eru fastar, einangraðar heima við með ofbeldismönnunum vegna samkomu- og útgöngubanna. Á sama tíma og fjármagni er beint frá lífsnauðsynlegri stoðþjónustu á borð við kvennaathvörf og neyðarlínur benda nýjustu úttektir til þess að þrír mánuðir af útgöngubanni til viðbótar þýði að 15 milljónir kvenna og stúlkna verði beittar kynbundnu ofbeldi.

Svona mikið þjóðfélagsmein er erfitt að laga og ekki eitthvað sem er hægt að laga einn, tveir og tíu en allir þurfa að vera meðvitaðir um sinn þátt í því. Öll kyn, stjórnvöld, einkaaðilar, félagasamtök og hreinlega allir. Þú getur kannski ekki haft merkjanleg áhrif á alheimsvandann en þú hefur völdin til að hafa áhrif á þínar gjörðir og getur jafnvel smitað út frá þér. Hugsið ykkur að vera kona innan um alla þessa brandara og fara svo heim til makans og að vita að þú lifir brandarann, sem í raun er martröð, helvíti og í versta falli lífshætta. Ég þarf sjálf að taka til hjá mér, hef alltof oft setið hljóð hjá enda var mér kennt að stúlkur séu þægar og rólegar. Kennslan náði sem betur fer ekki alla leið en ég finn fyrir þessari innprentun enn í dag.

Ég er samt afar heppin. Ég hef leyfi til að tjá skoðanir mínar og koma þeim á blað. Ég þakka Soroptimistaklúbbi Húsavíkur og nágrennis fyrir að fá mig í verkið. Ég ætla að reyna að gera betur og bendi lesendum á vefsíðu UnWomen þar sem hægt er að sjá meira um það mikla verkefni sem fyrir liggur og taka þátt í alþjóðlegum degi gegn kynbundnu ofbeldi með því að doka við og hugsa hvað þeir geta gert betur.

 Silja Jóhannesdóttir


 


Nýjast