Þegar Halli á Einarsstöðum bjargaði lífi Magga Bjarna eftir morðtilraun Akureyringa

F.v. Maggi Bjarna, Hallmar Freyr Bjarnason, sá mikli leiðtogi og formaður Völsungs og Matti í Túnsbe…
F.v. Maggi Bjarna, Hallmar Freyr Bjarnason, sá mikli leiðtogi og formaður Völsungs og Matti í Túnsbergi. Mynd: JS

Ritstjóri Víkurblaðsins á Húsavík ræddi við 5 af stofnfélögum Íþróttafélagsins Völsungs árið 1997, þá Söra Einars, Sigtrygg á Melum, Matta í Túnsbergi, Helga brasa og Valda Fúsa, í tilefni af 70 ára afmæli félagsins, en þá voru 12 stofnfélagar af 27 á lífi. Margt bar á góma í þessu spjalli. Meðal annars þegar Valdimar Vigfússon var spurður um hörkuna í fótboltanum í gamla daga:

“Jú, það var oft tekist á, en aldrei reynt að meiða menn vísvitandi, það voru helst aðstæður sem gátu skapað hættu. Einu sinni vorum við Völsungar að spila á Akureyri í slydduhríð og kulda og þá þurftu nokkrir að yfirgefa völlinn vegna vosbúðar. Akureyringar voru búnir að velta Manga Bjarna upp úr sama drullupollinum aftur og aftur og nánast búnir að drepa hann, án þess þó kannski að vilja endilega ganga af  honum dauðum. Og líklega bjargaði Haraldur á Einarsstöðum lífi Manga, því þegar hann skreið skjálfandi af velli, þá náði Halli í brennivínsflösku, hellti upp á Manga og lífgaði hann við í dauðateygjunum.”

Sagði Valdi Fúsa. Og blessuð sé minning hans og þeirra fimmmenninga. JS


Nýjast