Guðrún segir að á endastöð, Ráðhústorgi sé yfirleitt einn ræðumaður, tveir eða þrír eftir aðstæðum hverju sinni. Þá lýkur stundinni yfirleitt með sameiginlegri hugleiðsu, "þar sem við hugsum fyrir friði og aukinni samkennd," segir Guðrún. Hún segir að aðalatriðið sé að fólk komi saman og mótmæli ástandinu, en innan hópsins sem mætir geti verið skiptar skoðanir um hvernig best sé að leysa málið. "Þetta er fjölbreyttur hópur fólks með alls konar skoðanir á málefnum líðandi stundar, við eigum það sameiginlegt að vilja láta í okkur heyra, vera sýnileg og að ráðamenn viti að við erum ekki ánægð með hvernig fyrir þjóðinni fór," segir Guðrún.
Hún segir þátttakendur ánægða með þennan vettvang en gerir ráð fyrir að margir sitji heima og taki ekki þátt þó þeir séu í hjarta sínu sammála. "Mér finnst eins og margir haldi að þeir fái á sig einhvern stimpil ef þeir taki þátt. Ég er líka hrædd um að fólk loki sig bara af heima hjá sér og hafi áhyggjur af sér og sínum, skuldunum og finnist jafnvel að þeir hafi eytt um efni fram. Þetta ástand er hins vegar með þeim hætti að það er ekki einstaklingunum, hinum almenna borgara að kenna hvernig fór. Það versta sem fólk gerir er að loka sig af, ég mæli með því að fólk mæti í gönguna og upplifi þá samkennd sem þar ríkir. Það hefur áhrif að fara út á göturnar og mótmæla, ráðamenn taka eftir þessu og taka vonandi tillit til þess með sínum aðgerðum," segir Guðrún.