"Þarf breytingu til að bæta mig sem leikmaður"

Rakel Hönnudóttir í leik með Þór/KA í sumar.
Rakel Hönnudóttir í leik með Þór/KA í sumar.

Það urðu stórtíðindi í kvennaknattspyrnunni í síðustu viku þegar ein dáðasta knattspyrnukona Akureyrar, Rakel Hönnudóttir, yfirgaf Þór/KA og gekk í raðir Breiðabliks. Hún mun því leika með Kópavogsliðinu í Pepsi-deildinni næsta sumar. Í spjalli við Vikudag um félagaskiptin segir Rakel að þetta sé skref sem hún einfaldlega þurfti að taka fyrir knattspyrnuferilinn. „Ég þurfti að hugsa þetta mjög lengi. Mér finnst gengið mitt á vellinum upp á síðkastið ekki vera nægilega gott og ég hafi staðið svolítið í stað. Þannig að ég held að breyting sé það sem ég þarf á að halda til að bæta mig sem leikmaður. Ég vona að þetta sé skref upp á við á mínum ferli,“ segir Rakel og bætir við að fleiri lið hafi komið til greina. „Það var haft sambandi við mig frá öðrum félögum en mér leist best á æfingaaðstöðuna hjá Blikum og held að aðstaðan þar muni henta mér best.“ Rakel segist ekki hafa fengið neinar fyrirspurnir erlendis frá en hún hafði sett stefnuna á atvinnumennsku. „Ég ætlaði mér að fara út og hefði svo sem getað farið bara eitthvað. Ég hef samt meiri metnað en að fara bara í eitthvert lið og vil gera það almennilega þegar að því kemur. Ég lít á förina til Breiðabliks sem viðkomustað til að bæta mig meira áður en ég held út í atvinnumennsku,“ segir hún.
Verður erfitt að koma á Þórsvöll
Rakel, sem er 23 ára, hóf að leika með meistaraflokki Þórs/KA árið 2004 og á hún að baki 135 leiki í 1. og efstu deild með félaginu og í þeim leikjum hefur hún skorað 124 mörk. Hún hefur jafnframt verið fyrirliði liðsins undanfarin ár. Hún segir það hafa verið afar erfiða ákvörðun að yfirgefa uppeldisfélagið. „Þetta er eitt það erfiðasta sem ég hef á ævi minni gert. Það tók líka langan tíma fyrir mig að segja þetta upphátt en ég held að þetta hafi verið best fyrir mig samt.“ Hún segir að það verði blendnar tilfinningar að mæta á Þórsvöllinn næsta sumar, sem andstæðingur Þórs/KA liðsins. „Ég er einmitt búin að hugsa mikið um það og það verður erfitt. En það fylgir þessu bara,“ segir Rakel Hönnudóttir.

Nýjast